Liðsmenn séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar leika aðalhlutverk í jólamyndbandi Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem var gefið út fyrir jól. Létt er yfir myndskeiðinu og sjást liðsmennirnir meðal annars stýra sprengjuleitarvélmenni í hrjóstugu landslagi og nota það til að gleðja samstarfsmenn með jólagjöfum.

Formaður Samtaka hernaðarandstæðinga gagnrýnir gjörninginn og segir jólakveðjuna augljósa tilraun til að mýkja ímynd hernaðarbandalagsins. Hann kallar einnig eftir því að Landhelgisgæslan hætti þátttöku í hernaðaraðgerðum NATO.

Landhelgisgæslan eigi að vera borgaraleg

„Það kemur ekki beint á óvart að NATO vilji tengja sig við íslenska náttúru og kannski meinlausasta þáttinn í þeirra starfsemi sem er sprengjuleit Landhelgisgæslunnar,“ segir formaðurinn Guttormur Þorsteinsson.

„Hins vegar finnst manni leiðinlegt að það sé verið að draga Gæsluna inn í þetta, sem við viljum að sé borgaraleg stofnun en ekki hernaðarleg og nota íslenska náttúru þegar hernaður á vegum NATO er alveg einstaklega óumhverfisvænn.“ Búið er að horfa á myndbandið tæplega 1,5 milljón sinnum.

Hann segir að NATO hafi lengi lagt áherslu á í sínum samskiptum að það standi fyrir mjúk málefni á borð við kvenfrelsi sem gefi ef til vill skakka mynd af starfsemi bandalagsins.

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst hernaðarbandalag og af því að það er nú þarna sprengjuleitarsveit þá dettur manni í hug að Bandaríkin, langstærsti og valdamesti aðilinn innan NATO hafa hvorki undirritað samkomulag gegn klasasprengjum né jarðsprengjum þannig að þetta er nú svona svolítið kaldhæðnislegt.“

Lítt hrifinn af þróun mála

Samtök hernaðarandstæðinga hafa frá stofnun lagst gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin.

Guttormur segir leiðinlegt að horfa upp á að íslensk stjórnvöld hafi nýlega undirritað samkomulag um að auka varnir á Keflavíkurflugvelli og að frekari uppbygging standi til á gamla varnarsvæðinu. Til að mynda stendur til að uppfæra ratsjárkerfi, byggja svefnskála, endurbæta flugskýli og setja upp þvottastöðvar fyrir flugvélar.

„Það hafa verið einhverjar hugmyndir um að geta verið með kafbátaeftirlit hérna hjá vellinum og vera þá eitthvað meira með fast herlið, þannig að það má nú næstum því segja að herinn sé að koma aftur.“

Þá hafi borið á auknum þrýstingi á að hervæða norðurslóðir en Ísland hefur lagst gegn slíkum hugmyndum á vettvangi Norður-heimskautaráðsins.

„Það er samt stefna NATO og Bandaríkjanna að vera hér með aukinn viðbúnað, elta uppi einhverjar auðlindir á norðurslóðum og berjast við Rússa sem mér finnst auðvitað mjög skuggalegt.“