Ný skýrsla um ríkis­öryggismál Vestur-Þýskalands á eftirstríðsárunum, sýnir að skráðir meðlimir Nasistaflokksins voru mjög áhrifamiklir í dómskerfinu fram til ársins 1974. Á þetta einkum við um fulltrúa ákæruvaldsins.

Skýrslan var samin af sagnfræðingnum Friedrich Kiessling og lögspekingnum Christoph Safferling og telur 600 blaðsíður. Kemur meðal annars fram að á sjötta áratugnum voru þrír fjórðu allra yfirmanna hjá embætti ríkissaksóknara nasistar og 80 prósent af þeim höfðu starfað í dómskerfi Adolfs Hitler.

Það var ekki fyrr en árið 1972 sem þeir voru ekki lengur í meirihluta hjá embættinu og sá síðasti hætti árið 1992, tveimur árum eftir sameiningu Þýskalands.

Fjölmargir af þessum embættismönnum báru ábyrgð á mannslífum. En í valdatíð Hitlers var hlutleysi dómstóla svo gott sem lagt niður og tími sýndarréttarhalda tók við. Þó að mikill meirihluti aftaka og morða nasistanna hafi verið án dóms og laga, voru dauðadómar í dómskerfinu um 40 þúsund talsins.

Einkum með hengingu eða afhöfðun með fallöxi. Til samanburðar voru vel innan við 500 tekin af lífi frá aldamótunum 1900 til valdatöku nasista.

„Hjá embætti ríkissaksóknara var ekki skilið við fortíð nasismans,“ segja höfundarnir í skýrslunni.

Roland Freisler var alræmdasti dómari í sýndardómskerfi Hitlers
fréttablaðið/getty

Skýrslan var gerð að undirlagi saksóknarans Peters Frank árið 2017. Höfðu skýrsluhöfundar óhindraðan aðgang að hundruðum skjala um starfsmenn, sem læst höfðu verið niðri á eftirstríðsárunum.

En hver var ástæðan fyrir því að nasistunum var haldið í embættum? Jú, á sjötta áratugnum voru nasistarnir ekki lengur ógn, heldur kommúnistar. Vestur-Þýskaland naut stuðnings Bandaríkjanna og annarra vesturvelda við að uppræta kommúnisma í landinu.

Þetta var vitaskuld á kostnað þess að Þjóðverjar gætu gert upp fortíð sína gagnvart nasismanum og helförinni. Í áratugi var höfðinu stungið í sandinn gagnvart glæpum og gamlir nasistar þess í stað gerðir að bandamönnum í baráttunni gagnvart kommúnistum.

Embætti ríkissaksóknara er langt frá því að vera eina stofnunin sem nasistarnir fengu að leika lausum hala í. Til dæmis var árið 2016 gerð skýrsla um dómsmálaráðuneytið, þar sem kom fram að meira en áratug eftir stríðslok voru 77 prósent starfsmanna fólk sem skráð var í Nasistaflokkinn.

Safferling kom einnig að þeirri skýrslu og komst að því að hlutfallið jókst á sjötta áratugnum.