NASA undirbýr nú leiðangur sinn til Mars, sem farið verður í árið 2020, á Lambahrauni við rætur Langjökuls á Íslandi. Vísindamenn stofnunarinnar prófa þar búnað fyrir lítinn jeppa sem á að nota í leiðangurinn og segja aðstæður á Íslandi vera mjög svipaðar þeim sem finna megi á Mars.

Jeppinn sem er notaður er ekki sá sami og mun fara í leiðangurinn en er af svipaðri gerð. Búnaðurinn sem er verið að prófa er myndavélabúnaður sem er festur á jeppann. Hann getur búið til þrívíð kort af landinu fyrir framan jeppann.

„Við fáum hérna einmitt þær aðstæður sem við viljum sjá,“ segir Adam Deslauriers, vísindamaður hjá fyrirtækinu Canada‘s Mission Control Space Services , sem vinnur að því að prófa jeppann fyrir NASA. „Þetta er mjög góð hliðstæða þess sem maður myndi sjá á Mars og fullkomið fyrir undirbúninginn.“ Þannig eru jarðvegurinn og steindirnar sem finna má á Íslandi mjög svipað því sem finna má á Mars.

Það sem verið er að skoða sérstaklega er eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar jarðvegsins þegar hann berst með vatni og vindum. 15 vísindamenn og verkfræðingar hafa starfað á svæðinu síðustu þrjár vikur. Að sögn kanadíska fyrirtækisins mun það einnig koma hingað næsta sumar áður en að farið verður í leiðangurinn sem áætlað er að hefjist á milli 17. júlí og 5. ágúst á næsta ári.

Markmið leiðangursins er að leita að ummerkjum um að eitt sinn hafi lífverur lifað á Mars en einnig að afla upplýsinga um aðstæður á svæðinu til að undirbúa leiðangur fyrir menn á plánetuna.