Lista­konan Nara Wal­ker var leyst úr haldi í gær eftir um þriggja mánaða dvöl í fangelsi fyrir að hafa bitið hluta af tungu fyrr­verandi eigin­manns síns. Dómurinn hefur verið gagn­rýndur og Nara ítrekað haldið því fram að hún hafi verið beitt of­beldi af manni sínum. Þó að Nara sé laus úr haldi sætir hún enn far­banni á meðan hún lýkur skil­orðs­bundnum dómi.

Hún hóf af­plánun sína 20. febrúar á þessu ári en var færð rúmum mánuði síðar á Vernd. Hún var dæmd til á­tján mánaða fangelsis­vistar, þar af voru fimm­tán skil­orðs­bundnir. Nara sætir því enn far­banni og fær ekki af­hent vega­bréfið sitt á meðan mál hennar er enn til með­ferðar hjá Út­lendinga­stofnun.

„Ég því frjáls, en ekki frjáls,“ segir Nara Wal­ker í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Hún segir ó­víst með næstu stöðu. Hún megi ekki vinna. Á sama tíma megi hún ekki fara frá landinu. „Ég veit ekki hvers er ætlast til af mér,“ segir Nara.

Mótmæltu afplánun við Hólmsheiði

Þegar Nara hóf af­plánun í febrúar safnaðist hópur kvenna saman við fangelsið á Hólms­heiði í mót­mælenda­skyni en Nara hefur stað­fast­lega haldið því fram að hún hafi bitið þá­verandi eigin­mann sinn til að verja sig. Hann hafi í­trekað beitt hana of­beldi og að hún hafi haft ríka á­stæðu til að telja að hún hafi verið í mikilli hættu. Dómurinn féllst ekki á að við­brögð hennar hefðu helgast af nauð­vörn.

Taka mál hennar fyrir MDE

Nara var í ítar­lega við­tali við ABC í Ástralíu þar sem hún greinir frá upp­lifun sinni af dvölinni í fangelsinu. Þar segir hún að hún hafi haft meiri öryggis­til­finningu fangelsi en í hjóna­bandinu sínu. Hún segir að um leið og hún komst í rútínu í fangelsinu hafi dvölin verið bæri­legri, þó að hún hafi verið erfið.

Þar greinir hún frá því að lög­fræðingar hennar hyggjast taka mál hennar fyrir Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu.

Hægt er að lesa við­talið hér.