Lista­konan Nara Wal­ker opnar á morgun, mánu­dag, list­sýningu í galleríinu Flæði á verkum sem hún bjó til á meðan hún sat af sér fangelsis­dóm sinn.

Fjallað hefur verið ítar­lega um mál Nöru en hún var sak­felld fyrir að hafa bitið af odd af tungu fyrrverandi eiginmanns síns og afplánaði fyrir það þriggja mánaða dóm. Þrjá mánuði afplánaði hún á Hólmsheiði og á Vernd. Nara afplánar hina fimmtán á skilorði. Nara hefur kært ís­lenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) og bíður enn úr­lausnar mála sinna þar.

Nara segir að þeir þrír mánuðir sem hún af­plánaði í fangelsi hafi verið ögn bæri­legri vegna þess að henni var leyft að hafa hjá sér pappír, penna og vatns­liti.

„Mér var leyft að hafa það í her­berginu mínu á meðan ég var á Hólms­heiði. Ég skrifaði einnig mikið, eða alls um 130 til 140 síður í dag­bók. Það hjálpaði mér mikið,“ segir Nara og bætir við að hún sé enn að gera það upp við sig hvort hún eigi að lesa upp úr dag­bókar­færslum sínum á opnuninni á morgun.

Verkin endurspegli líðan hennar í fangelsinu

Nara lýsir verkunum sem hún gerði innan veggja fangelsisins sem portett­verkum sem fangi kjarna mann­legs eðlis. Sum séu meira ab­strakt en önnur. Hún segir að það sem hafi ratað á blað sé bæði birtingar­mynd hennar sjálfrar og þess sem gerist í ó­jarð­neskum heimi. Það komi saman í mál­verkunum.

„Verkin sem ég bjó til á Hólms­heiði eru unnin með penna og vatns­litum, en á Vernd var mér leyft a hafa akrýlliti og þau eru því nokkuð ólík. Það er mikið af and­litum í verkunum og það er á­huga­vert fyrir mig að endur­spegla mig í þeim því það tekur mig aftur á þann dag sem þau voru sköpuð og ég get næstum verið þar aftur,“ segir Nara.

Nara segist geta endurspeglað sig í málverkunum sem hún gerði í fangelsinu.
Mynd/Nara Walker

Persónuleg sýning sem margar konur geti tengt við

Hún segir að ef­laust geti margar konur tengt við það sem kom fyrir hana. Nara hefur á­vallt haldið því fram að hún hafi að­eins beitt fyrr­verandi eigin­mann sinn of­beldi í nauð­vörn. Hún taldi raun­veru­lega að hann hafi ætlað að myrða hana þetta kvöld. Nara hlaut alls 18 mánaða dóm fyrir ofbeldi sem hún beitti eiginmann sinn fyrrverandi.

„Þetta er mín per­sónu­lega reynsla, en ég held að margir geti tengt við hana,“ segir Nara.

Nara málaði mikinn fjölda verka auk þess sem hún bæði skrifaði og teiknaði í tvær bækur. Hún telur að það séu alls um 70 verk sem verða til sýnis.

„Þau eru lítil, en ég er að spá hvort ég eigi líka að sýna verk frá því áður en ég fór í fangelsi og svo verk sem ég hef gert eftir að ég kom út. Svo fólk fái til­finningu fyrir tíma­línunni,“ segir Nara.

Sýningin hluti af bataferlinu

Nara segir að sýningar­plássið sé ekki mjög stórt, en að það geti á sinn hátt verið tákn­rænt.

„Her­bergið er lítið og ég bjó öll verkin til í einu her­bergi. Heimili mitt varð eitt her­bergi og í raun hef ég verið í ó­líkum her­bergjum allan tímann sem ég hef verið á Ís­landi. Allan tímann hef ég skapað, því það er sú sem ég er. Fyrir mig er það heilandi og eins og með­ferð. Her­bergið er lítið, en er full­komið fyrir sýninguna,“ segir Nara.

Hún segir að sýningin sé að miklu leyti mjög per­sónu­leg fyrir hana. Hún hafi aldrei áður sýnt teikningarnar sínar, heldur frekar mál­verkin og gjörninga­list sína.

„Þetta er spennandi tíma­bil fyrir mig, og hrein­skilið. Ég vil vera hrein­skilin í því að deila reynslu minni,“ segir Nara.

Hún segir að sýningin sé hluti af bata­ferli hennar.

„Með því að sýna þetta núna er að ein­hverju leyti ég að skilja þetta eftir í for­tíðinni og vinna að því að klára þetta mál. Þannig leyfi ég ein­hverju nýju að gerast. Ég er til­búin að deila þessu með fólki núna,“ segir Nara.

Alls verða um 70 verk til sýnis.
Mynd/Nara Walker

Ekki heimilt að selja verkin

Sýningin verður uppi í tvo daga. Nara sjálf verður sjálf þar á þriðju­dag frá klukkan 13 og á opnuninni á morgun.

Verkin verða þó ekki til sölu. Bæði vegna þess að hún af­plánar en dóm sinn, skil­orðs­bundið, og vegna þess að hún er ekki komin með lög­heimili á landinu. Henni er því ekki heimilt að vinna.

Eins og fyrr segir rekur Nara mál gegn ís­lenska ríkinu fyrir Mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu. Hún bíður þess að dóm­stóllinn taki á­kvörðun um það hvort þau taki mál hennar til efnis­legrar með­ferðar. Fjallað var ítar­lega um mál hennar fyrir dóm­stólnum á vef Frétta­blaðsins í sumar.

Vegna þess að hún hefur ekki leyfi til að vinna hefur Nara undan­farna mánuði safnað fyrir lög­fræði­kostnaði sínum. Hægt er að styðja við Nöru hér á Gofundme síðunni hennar.

Hér er svo hægt að fá nánari upplýsingar um listasýninguna sem opnar á morgun.