Vinsældir fjallsins K2 fara ört vaxandi meðal fjallgöngumanna. Áður beindu þeir flestir sjónum sínum að Everest að sögn spænska blaðsins El País en nú hefur orðið breyting á.
Er rakið í El País að fram til febrúar í fyrra hefði Everest verið klifið 10.658 sinnum en K2 aðeins 377 sinnum. Í sumar hafi fjallagarpar nánast staðið í röð við hinn alræmda Flöskuháls í K2 til að komast upp þetta næsthæsta fjall jarðar með sína 8.611 metra en síður en svo minni áskorun en Everest sem er 8.848 metrar. Þann 22. júlí síðastliðinn náðu 145 manns á topp K2 á einum og sama deginum.
Miklar hættur af ís- og snjóskriðum steðja að fólki í Flöskuhálsinum og það er því afleitur staður fyrir mannsöfnuð.