Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar í dag fimm ára afmæli sem forsætisráðherra þjóðarinnar.

Mikið annríki hefur einkennt stjórnartíð hennar, kórónufaraldur og fleira. En á forsætisráðherra sér eitthvert einkalíf?

„Voða lítið. Það er ekki frá neinu að segja,“ svarar hún þegar blaðamaður Fréttablaðsins ræðir við hana um tímamótin í Stjórnarráðinu.

Eitt andartak er líkt og örli á söknuði.

„Eru ekki bara allir Íslendingar að vinna eins og brjálaðir? Er það ekki okkar samfélag?“ Segir hún svo.

Katrín upplýsir að eiginmaður hennar færi ýmsar fórnir til að hún nái að komast yfir verkefni sem oft spyrja ekki um helgan vinnudag eða virkan, að ónefnd séu ferðalög út fyrir landsteinana. Hún segir lykilatriði að maðurinn hennar hafi sjálfur brennandi áhuga á stjórnmálum.

„Hann hefur brjálæðislegan áhuga á pólitík og er mjög góður að leita til. Ég held að enginn myndi nenna að vera giftur mér nema finnast ég vera að gera mikilvæga hluti.“

Um það að vera þekkt andlit og opinber fígúra segist Katrín ekki oft upplifa neikvæðar hliðar þess.
„Fólk á Íslandi kippir sér ekkert upp við að einhver þekktur sé í kringum það.“

„Það er samt svolítið fyndið þegar fólk er að skoða hvað ég kaupi í matinn í verslunum. Fólk kíkir í matarkörfuna mína og hugsar sitt.“

Mjög óspennandi kokkur!

Þegar Fréttablaðið langar að slást í hóp þeirra sem vilja hnýsast og spyr hvað sé dæmigert fyrir innihald í innkaupakörfu forsætisráðherra, svarar Katrín:

„Ég er mjög óspennandi í innkaupum, mér finnst geggjað að borða soðna ýsu með tómatsósu og kartöflum en maðurinn minn er miklu exótískari og frumlegri kokkur. Ég er svolítið í eldamennskunni eins og ég kunni bara hússtjórnarbókina árið 1975,“ segir hún og skellihlær.