Jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands eru á leið til baka úr þyrluflugi Landhelgisgæslunnar sem farið var í morgun til að kanna aðstæður á gosstað við Fagradalsfjall í Geldingadal. Myndir úr fluginu hafa þó borist þeim sem eru í húsi Veðurstofunnar og fer nú fram samanburður á þeim og myndum sem teknar voru í nótt. Svo virðist sem dregið hafi eitthvað úr virkni gossins.
„Þessar fyrstu myndir staðfesta það allavega að þetta er mjög lítið gos innikróað í Geldingadölum,“ segir starfsmaður Veðurstofunnar í samtali við Fréttablaðið.
„Miðað við þessar myndir þá er eins og það sé nánast engin kvikustrókavirkni eða gjóska þarna,“ heldur hann áfram.
Spurður hvort það geti þýtt að gosinu ljúki hreinlega í dag eða á allra næstu dögum segir hann: „Það er ofboðslega erfitt að skjóta á það. Við verðum aðeins að fylgjast með framvindunni í dag og sjá hvernig flæðið er þarna.“
