Skortur á hjúkrunar- og dvalarrýmum hefur verið viðvarandi vandamál undanfarin ár, ekki síst á landsbyggðinni. Fólki á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum hefur fjölgað um 40 prósent á aðeins sex árum, úr 280 í 390. Eybjörg G. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), segir vandann uppsafnaðan frá árunum eftir hrun.

„Í tíu ár var næstum ekkert nýtt byggt án þess að eldri heimili dyttu út á móti, til ársins 2019, þegar opnað var á Seltjarnarnesi,“ segir Eybjörg. Nettófjölgun rýma 2009 til 2018 var aðeins 50. Heimili var opnað á Sléttuvegi í ár en Eybjörg segir ekkert annað stórt heimili vera á döfinni næstu árin. „Á þessum tíma hefur öldruðum fjölgað hlutfallslega í samfélaginu og legurýmum inni á heilbrigðisstofnunum fækkað, án þess að rýmum á hjúkrunarheimilum fjölgi á móti.“ Hefur legurýmum fækkað úr 1.283 í 1.009 frá árinu 2007 til 2018.

790 rými eru á framkvæmdaáætlun stjórnvalda til ársins 2023 en Eybjörg segir þetta ganga hægt fyrir sig og ekki samkvæmt áætlunum. Í umsögn SFV um fjárlög var bent á ógegnsæi hvað varðar fjárveitingar til hjúkrunar- og dvalarrýma á landinu og hvergi hægt að sjá hvaða áætlaður rýmafjöldi lægi að baki.

Vandinn leggst mjög misþungt á landsvæði og einna þyngst leggst hann á Norðurland. Lengsti biðtími landsins er á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík, 694 dagar, eða nærri tvö ár. Á Hvammi á Húsavík er biðtíminn 182 dagar eftir hjúkrunarrými og 313 dagar eftir dvalarrými. Hafa ber í huga að viðmunarbiðtíminn er 90 dagar. Til stendur að byggja fleiri rými á Hvammi en ekki fyrr en árið 2024. Nýlega skoraði bæjarstjórn Norðurþings á heilbrigðisráðherra að flýta opnun hjúkrunarrýma á Hvammi.

Staðan er lítið skárri víðs vegar annars staðar á Norðurlandi. Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki er 527 daga bið eftir hjúkrunarrými og meiri en 200 dagar hjá bæði Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri. 644 daga bið er eftir dvalarrými hjá Dalbæ á Dalvík og 491 dags bið hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Sums staðar á landinu er hins vegar lítil bið eftir dvalarrými og engin í hjúkrunarrými, til dæmis Stykkishólmi, Ólafsvík, Búðardal, Vopnafirði og meira að segja nokkrum stöðum á Norðurlandi, það er Ólafsfirði, Þórshöfn og Skagaströnd.

„Ekki hefur verið sett nóg fjármagn í önnur úrræði til að taka á móti fólki sem kemst ekki inn, til dæmis með hvíldarrýmum eða aukinni dagdvalarþjónustu,“ segir Eybjörg. „Þá var aldurstakmarkið, 67 ára, tekið af fyrir nokkrum árum og því fleiri um hituna að komast inn. Allt leiðir þetta að sömu niðurstöðu. Að rýmin eru of fá miðað við þann fjölda sem þarf á þjónustunni að halda.“