„Ég hef heyrt í nokkrum sem hafa verið að velta þessu fyrir sér, hvenær þeir þurfa að vera komnir heim upp á sóttkví og annað,“ segir Haukur Logi Karlsson, formaður SÍNE, sambands íslenskra námsmanna erlendis, en hann hefur rætt við þó nokkra íslenska námsmenn sem staddir eru erlendis og segir fyrstu spurningu yfirleitt vera hvenær viðkomandi þurfi að koma heim til að halda jólin.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði á upplýsingafundi í vikunni að Íslendingar sem eru búsettir erlendis og ætla að koma heim yfir jólin þurfi að koma heim eigi síðar en 18. desember til að sleppa við sóttkví um jólin.

Fólk sem flýgur hingað til lands þarf að velja milli þess að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli eða 14 daga sóttkví. Víðir benti einnig á að yfirvöld væru vel í stakk búin til að taka á móti auknum fjölda í kringum jólin.

Haukur segir að eitt sé að komast heim og ná jólunum en að fara aftur út og fara þá aftur í sóttkví geti flækt stöðuna. Ef Ísland fer á grænan lista Evrópusambandsins í kjölfarið á því að smitum hafi fækkað mikið að undanförnu geti það þó leyst mörg vandamál námsmanna erlendis.

Margir sem hafa frestað námi vegna faraldursins

„Flestir íslenskir námsmenn eru staddir í Skandinavíu, Bretlandi og Bandaríkjunum og svo er svolítið stór hópur af læknanemum í Ungverjalandi. En svo er fólk reyndar út um allt og það eru Íslendingar víða í námi,“ segir Haukur. Hann segist geta ímyndað sér að þetta námsár hafi verið mörgum þungt í skauti enda hafi COVID sett allt skólastarf um allan heim úr skorðum.

„Ég held að þetta sé búið að vera strembið hjá ansi mörgum. Fólk náði að koma sér út en svo lentu margir í því að skólunum var hreinlega lokað og viðkomandi þarf þá að fara í fjarnám fastur inni í lítilli íbúð. Viðkomandi hittir varla neinn, hefur ekkert stuðningsnet og upplifir ekkert félagslíf. Þetta er búið að vera erfitt ástand hjá mörgum.

Það er öðruvísi að vera hér á Íslandi þar sem stuðningsnetið er með fjölskyldu og vini. Námsmenn erlendis þurfa að standa á eigin fótum og sækja þá yfirleitt í félagsskap frá öðrum samnemendum. Síðan er skólanum lokað.“

Hann veit til þess að margir hafi frestað námi sínu eða hrökklast úr náminu sökum ástandsins. „Ég held að margir námsmenn hafi séð í hvað stefndi og frestað námi. Stefndu á að fara í mastersnám eða annað styttra nám og slógu því á frest. Svo hefur maður heyrt af námsmönnum sem fóru út en hafa komið aftur heim vegna ástandsins.“