„Væg einkenni geðlægðar hjá ungmennum eru talin geta verið vísbending um alvarlega geðlægð síðar á unglings- eða fullorðinsárunum svo það er mikilvægt að reyna að grípa inn í sem fyrst,“ segir Eiríkur Örn Arnarson, prófessor og sérfræðingur í klínískri sálfræði. Hann flytur í dag erindi í Háskóla Íslands um forvarnir gegn geðlægð ungmenna, með yfirskriftinni Geðveik nýsköpun.

Eiríkur hefur, ásamt samstarfsmanni sínum, Ed Craighead, prófessor við Emory-háskólann í Georgíu, þróað námskeið sem byggir á hugmynd hugrænnar atferlismeðferðar sem forvarnar við geðlægð ungmenna. Lagður var spurningalisti fyrir íslensk ungmenni í níunda bekk og þeim ungmennum sem sýndu mörg einkenni geðlægðar var boðið á námskeiðið.

Niðurstöður rannsókna þeirra sýna að marktækt meiri líkur voru á því að ungmenni sem ekki sátu námskeiðið hefðu þróað með sér geðlægð eða óyndi en þau sem fóru á námskeiðið. „Þetta sýnir að með því að hafa áhrif á hugsun og hegðun er hægt að hafa áhrif á og breyta líðan.“

Eiríkur segir um 17 prósent fullorðinna einstaklinga upplifa alvarlega geðlægð á lífsleiðinni en um 20-25 prósent ungmenna. Þá sé algengi geðlægðar talið vera að aukast í vestrænu samfélagi. „Því fyrr sem geðlægð gerir vart við sig því líklegra er að endurtekin geðlægð verði síðar og vari lengur,“ segir Eiríkur og leggur áherslu á hversu mikilvægt sé að grípa inn í sem fyrst.

„Jafnvel minnsti bati vegur þungt á vogarskálum bæði einstaklinga og þjóðar, svo það er mikilvægt að koma í veg fyrir fyrstu bylgjuna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur geðlægð vera eina helstu ástæðu fötlunar í heiminum og að árið 2030 verði alvarleg geðlægð í þriðja sæti yfir þá sjúkdóma sem valdi mestri efnahagslegri byrði í heiminum,“ segir Eiríkur.

Þá segir hann ekki miklu fjármagni veitt í forvarnir þrátt fyrir að margsinnis hafi verið sýnt fram á jákvæð áhrif þeirra. „Mér finnst umhugsunarvert hvernig við getum notað forvarnir til að koma í veg fyrir þróun sjúkdóma í stað þess að vera alltaf að takast á við sjúkdóma. Það tekur kannski ár og daga en getur verið árangursríkt. “

Inntur eftir því hvort forvarnir séu enn mikilvægari nú vegna faraldursins, segist Eiríkur telja líklegt að svo sé. „Það er mjög líklegt að svona meiriháttar áföll hafi áhrif ekki bara á líkamlega heilsu, heldur líka andlega. Við höfum til að mynda heyrt að áhrif hrunsins hafi komið fram mörgum árum síðar,“ segir hann.

„Ég held að við þurfum virkilega að huga að andlega þættinum og áhrifunum sem það hefur á ungmenni að geta til að mynda ekki mætt í skóla og fá ekki þau félagslegu samskipti sem því fylgir,“ segir Eiríkur. Erindið verður flutt á hádegi í dag og er streymt beint á vef Nýsköpunarviku.