Namibísk stjórnvöld vilja ekki staðfesta að fundur namibískra embættismanna með Brynjari Níelssyni, aðstoðarmanni dómsmálaráðherra, þann 7. júní síðastliðinn hafi verið í einkaerindum. Þetta kom fram í samtali Fréttablaðsins við talskonu hjá namibíska utanríkissamskipta- og samvinnuráðuneytinu.

Brynjar fundaði í dómsmálaráðuneytinu með aðstoðarforsætisráðherra Namibíu, ríkissaksóknara Namibíu og aðstoðarframkvæmdastjóra namibísku spillingarnefndarinnar í byrjun júní. Hann sat fundinn fyrir hönd Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, sem var fjarverandi. Namibísku embættismennirnir höfðu fundað með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra fyrr sama dag.

Brynjar hefur í kjölfarið neitað að upplýsa um tilefni fundarins og hefur vísað til þess að fundurinn hafi verið í einkaerindum en ekki opinberum erindagjörðum og sé þar með utan gildissviðs upplýsingalaga. Á Facebook-síðu sinni stakk hann upp á því að namibísku embættismennirnir hefðu verið á Íslandi í sumarfríi og hefðu viljað „heilsa upp á.“

„Ef þetta er það sem Íslendingar segja, þá er þetta það sem þeir segja,“ sagði tengiliður í namibíska ráðuneytinu, en neitaði að öðru leyti að tjá sig um það hvort ráðuneytið teldi fundinn hafa verið í opinberum erindagjörðum eða ekki.