Bandaríska utanríkisráðuneytið gaf í dag út yfirlýsingu þess efnis að tveimur namibískum fyrrum embættismönnum, þeim Bernhardt Esau og Sacky Shangala, verði framvegis bannað að koma til Bandaríkjanna. Um er að ræða ráðherrana tvo sem voru handteknir fyrir að taka við mútugreiðslum frá íslenska sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja í skiptum fyrir aðgang að fiskimiðum landsins. Esau, sem er fyrrum sjávarútvegsráðherra, og Shangala, sem er fyrrum dómsmálaráðherra, sitja nú í gæsluvarðhaldi og bíða réttarhalda sem áætlað er að fari fram í september.

Í yfirlýsingunni er sagt að Esau og Shangala hafi verið viðriðnir „spillta háttsemi sem gróf undan réttarríkinu og trausti namibísks almennings á lýðræðislegum stofnunum og opinberum ferlum, þar á meðal með því að beita pólitískum áhrifum sínum og opinberum völdum í eigin þágu.“

Auk Esau og Shangala nær farbannið til nánustu ættingja þeirra. Eiginkonu og syni Esau verður því einnig meinað að stíga fæti á bandaríska grundu.

Með því að stimpla ráðherrana tvo á þennan hátt eru Bandaríkin samkvæmt yfirlýsingunni að staðfesta vilja sinn til að stuðla að baráttunni gegn spillingu í Namibíu. „Bandaríkin standa áfram með öllum Namibíumönnum til stuðnings lýðræðinu og réttarríkinu og gegn þeim sem grafa undan þessum meginreglum vegna eigin sérhagsmuna.“