Ríkisstjórn Namibíu er sögð „afar pirruð“ yfir skorti á samstarfsvilja íslenskra stjórnvalda í Samherjamálinu. Þetta kom fram í forsíðufrétt namibíska blaðsins The Namibian Sun í dag. Sér í lagi virðist talsverðrar gremju ríkja um heimsókn namibískra embættismanna til Íslands í júní og með það að sendinefnd Namibíumanna hafi ekki fengið að funda með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra.

„Jafnvel 10.000 kílómetra ferð varaforsætisráðherrans Netumbi Nandi-Ndaitwah frá Windhoek til Reykjavíkur nægði ekki til þess að sannfæra íslensk ákæruyfirvöld að heimila framsal stjórnarmanna Samherja,“ stendur í grein Namibian Sun.

Netumbo Nandi-Ndaitwah, varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu, kom til Íslands þann 9. júní síðastliðinn ásamt Mörthu Imalwa, ríkissaksóknara Namibíu, og Ernu van der Merwe, aðstoðarframkvæmdastjóra namibísku spillingarnefndarinnar. Þær funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra en þegar þeim var beint til dómsmálaráðuneytisins var Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fjarverandi.

Hans í stað fundaði namibíska sendinefndin með Brynjari Níelssyni, aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Brynjar hefur verið dulur í máli um efni fundarins og hefur vísað til þess að hann telji fundinn ekki hafa verið í opinberum erindum, heldur einkaerindum, og að Namibíumennirnir hafi hugsanlega verið í sumarfríi á Íslandi og ákveðið að „heilsa upp á.“ Namibísk stjórnvöld gátu ekki staðfest þær bollaleggingar í fyrirspurn fréttablaðsins fyrr í ágúst.

Samræmist ekki frásögn Brynjars

Í frétt Namibian Sun kemur fram að Nandi-Ndaitwah, sem kom til Íslands á undan kollegum sínum, skipulagði fundinn fyrir fram. Jafnframt er haft eftir Mörthu Imalwa að hún hafi verið hluti af sendinefnd í krafti embættis síns sem saksóknari. Frásögn þeirra samræmist því illa hugmyndum Brynjars um að fundurinn hafi ekki verið í opinberum erindagjörðum.

Höfundur greinar Namibian Sun segist hafa „áreiðanlegar heimildir“ fyrir því að Jón Gunnarsson hafi vísvitandi forðast að hitta namibísku sendinefndina og að líta megi á fundinn með Brynjar sem svívirðingu í ljósi þess að sem aðstoðarmaður sé hann aðeins „upphafinn ritari án nokkurra stjórnsýslulegra valda“ sem ætti ekki að vera þátttakandi í svo alvarlegum viðræðum.

Undir frétt blaðsins er viðtal við Netumbo Nandi-Ndaitwah þar sem hún harmar Samherjamálið og skaut föstum skotum á Samherja. „Sumt fólkið sem hefur misst vinnuna er frá einu fyrirtækinu sem hefur flúið af hólmi eftir þetta hneykslismál í sjávarútgerðinni.“