Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítala vinnur nú að því að gera Naloxone nefúða aðgengilegan, notendum að kostnaðarlausu, um allt landið. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins en frá 1. júlí mun heilbrigðisráðuneytið greiða allan kostnað vegna lyfsins.
Lyfið er notað í þeim tilfellum þegar þörf er á tafarlausri meðferð vegna ofneyslu á ópíóðum en slíkt getur valdið öndunarstoppi og dauða. Þannig er lyfið talið mikilvægt í baráttunni gegn ópíóðafaraldrinum sem geysað hefur hér á landi um nokkurt skeið.
Fram kemur í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins að Naloxone sé hvorki ávanabindandi né hættulegt. Eina ábendingin fyrir notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíóða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu. Eftir sem áður þarf að koma viðkomandi undir læknishendur.
Í fyrstu verði lyfið gert aðgengilegt hjá tilteknum aðilum sem muni þá geta dreift lyfinu áfram eftir þörf. Gert er ráð fyrir að þessi þjónusta verði nýtt m.a. hjá eftirtöldum aðilum:
- Rauða krossi Íslands /Frú Ragnheiði og Ylju
- Lögreglu
- Heilsugæslum
- Björgunarsveitum
- Félagsþjónustu sveitarfélaga og úrræða á þeirra vegum sem koma að þjónustu við einstaklinga með ópíóðafíkn
Naloxone hefur mikið verið notað erlendis en til dæmis hefur lyfið verið aðgengilegt fólki í Noregi að kostnaðarlausu síðan 2014.