Úrskurður liggur fyrir hjá Persónuvernd í kvörtunarmáli þar sem nágrannar settu upp eftirlitsmyndavélar frá Securitas við heimili sitt.

Kvartandi taldi að myndsvið vélanna næði inn í hans garð, stofu og svefnherbergi. Samkvæmt úrskurði Persónuverndar náði myndsvið vélanna að hluta út fyrir lóð ábyrgðaraðila og yfir nærliggjandi hús og bílastæði. Ekki var sýnt fram á nauðsyn þess að vakta svæði utan lóðarmarka eiganda myndavélanna.

Persónuvernd komst því að þeirri niðurstöðu að vöktunin væri brot á lögum. Eigandi myndavélanna hefur vegna brotsins fengið fyrirmæli frá Persónuvernd um að láta af allri rafrænni vöktun sem beinist út fyrir lóð við hús þeirra sem kvörtuðu.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að til að rafræn vöktun sé heimil verði hún að fara fram í málefnalegum tilgangi auk þess sem rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sé háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fari fram.

Vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við rafræna vöktun þurfi ætíð að uppfylla ákvæði laga. Almennt hafi verið talið að einstaklingum sé heimilt að vakta yfirráðasvæði sitt, til dæmis innan lóðar við fasteign sína, en vöktun á almannafæri skuli eingöngu vera á hendi lögreglunnar nema sérstök sjónarmið eigi við sem réttlæti slíka vöktun á hendi einkaaðila. Rafræn vöktun ábyrgðaraðila sé í öryggis- og eignavörslutilgangi.

Ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að vakta svæði utan lóðar eigenda til að ná tilgangi vöktunarinnar. Þar með teljist vöktunin ekki samrýmast lögum nr. 90/2018, reglugerð (ESB) 2016/679 og reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun.