Margir vegfarendur ráku upp stór augu þegar þeir sáu bifreið merkta Reykjavíkurborg aka um á nagladekkjum.

Notkun nagladekkja er bönnuð frá 15. apríl til 31. október en vegna aðstæðna hefur lögregla gefið út að ökumenn verði ekki sektaðir.

Fleiri bílar á vegum hins opinbera eru komnir á nagla, þar á meðal bíll Tollgæslunnar.

Reykjavíkurborg hefur sent út hvatningu til bifreiðaeigenda um að velja frekar góð vetrardekk eða heilsársdekk fremur en nagladekk undir yfirskriftinni „Nagladekk eru ekki góður kostur í Reykjavík“.

Segir þar að mörg dæmi séu um að borgaryfirvöld banni slík dekk en það megi ekki samkvæmt íslenskum umferðarlögum.

Bíllinn er vetrarþjónustubíll sem hefur eftirlit með hálku á götum og stígum á nóttunni.
Mynd/Valgarður Gíslason

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er bíllinn sem ljósmyndari rakst á svokallaður vetrarþjónustubíll. Bíllinn hefur eftirlit með hálku á götum og stígum á nóttunni til að kanna hvort aðgerða sé þörf.

Hann mun vera á sérstakri undanþágu.