„Það er ýmislegt þarna inni sem ég er ekkert endilega sammála enda er ég með fyrirvara á stefnunni í heild sinni eins og ég segi í bókuninni. En ég greiddi ekki atkvæði á móti því það var tekið tillit til minna sjónarmiða,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, en hún sat í stýrihópi um loftslagsstefnu Reykjavíkur sem kynnt var á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur í síðustu viku.

Í drögunum sem kynnt voru og verða tekin fyrir á borgarstjórnarfundi á fimmtudag kennir ýmissa grasa. Sagt er að áratugur aðgerða sé runninn í garð og fjölmargar hugmyndir kynntar en fyrir utan hugmyndir stýrihópsins bárust um 200 hugmyndir frá almenningi eins misjafnar og þær voru margar. Aðgerðaáætlunin nær yfir árin 2021–2025 og er sett í framhaldi af fyrri aðgerðaáætlun sem gilti til loka árs 2020.

Ljóst er að fjölga þarf vistvænum ökutækjum en markmið borgarinnar er að hlutfall ferða sem farnar eru á bíl fari úr 73 prósentum í 58 prósent. Á fjórum árum hefur losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis dregist saman í borginni um 577 tonn. Losun vegna raforku hefur dregist saman um 82 tonn og losun vegna úrgangs hefur aukist um 387 tonn.

Stærsta viðfangsefnið og mestu tækifærin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda liggja í breyttum samgöngum. Þar er mesta losunin, bæði landfræðilega og í rekstri borgarinnar, segir í drögunum. Það er því stefnt að því að gera borgina gönguvæna. Þá er talað um að fækka bensínstöðvum, fækka bílastæðum um tvö prósent á ári og mengunarlaus svæði skilgreind.

Þrátt fyrir fögur loforð er ekkert minnst á nagladekk en Vigdís segir að það sé ástæða fyrir því. „Það sem birtist okkur er að það er mikil uppbygging á Suðurlandi vegna lóðaskortsstefnu meirihlutans í borginni. Fólk er að leita eftir stærra húsnæði, jafnvel leikskólaplássi en foreldrarnir þurfa að sækja vinnu til borgarinnar. Það er því ekkert hægt að taka nagladekk úr umferð,“ segir Vigdís. Hún bendir einnig á að göturnar séu illa þrifnar og hún sé með fyrirspurn inni á borði um hve oft götur voru þrifnar í Reykjavík í fyrra.

Þess má geta að í rannsóknarskýrslu Vegagerðarinnar; Losun svifryks frá gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu – ferlar og líkan, segir að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun en næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé langveigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Vigdís veit þó hvað hún syngur þegar kemur að loftslagsmálum og fagnar því að tekið var tillit til hennar sjónarmiða, meðal annars að notast við eins nýjar upplýsingar og til voru. Vinna hópsins tafðist um nokkra mánuði vegna þessa en töfin leiddi það af sér að vinna hópsins bætti faglega niðurstöðu skýrslunnar. „Fyrst átti að notast við tölur frá árinu 2015 sem ég benti á að það væri ekki hægt að byggja loftslagsstefnu á gömlum upplýsingum. Vinnan frestaðist því það var verið að afla nýrra gagna.“

Uppfært 10:30

Upplýsingastjóri borgarinnar segir að svifryksmengun vegna nagladekkja sé ekki hluti af gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum.

Nagladekk valda hins vegar svifryki og mengun í nærumhverfi sem talið er að valdi fjölda dauðsfalla hér á landi á hverju ári.

Borgin hefur ítrekað krafist lagaheimildar frá ríkinu til að banna notkun nagladekkja innan borgarinnar en án árangurs. Reykjavík stendur árlega fyrir fræðslu og auglýsingum til að draga úr notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu.

Þá skal það ítrekað að nagladekkjanotkun og svifryk telja ekki inn í loftslagsbókhald og er það einfaldlega ástæðan fyrir því að ekki er minnst á nagladekk í loftslagsáætlun borgarinnar. Hins vegar er fjallað um mikilvægi þess að draga úr notkun nagladekkja í umhverfis- og auðlindastefnukafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.