Meirihlutinn í Reykjavík segir í bókun sinni á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur að svifryk sé ógn við heilsu fólks og líf. Að búa við svifryksmengun sem fari yfir heilsuverndarmörk og setji þannig heilsufar íbúa höfuðborgarsvæðisins í hættu sé óásættanlegt og draga verði sem mest úr allri nagladekkjanotkun. „Umferð og útblástur bíla er helsta orsök svifryksmengunar og þá sér í lagi bíla á nagladekkjum,“ segir í bókun meirihlutans.

Farið var yfir nýja rannsókn um svifryk og þátt nagladekkja, sem Vegagerðin gerði og birtist í lok nóvember síðastliðins, á fundinum. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er sú að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun en næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé langveigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Borgin hefur ítrekað krafist lagaheimildar frá ríkinu til að banna notkun nagladekkja innan borgarinnar, en án árangurs. Segir meirihlutinn að áríðandi sé að stjórnvöld grípi til allra þeirra árangursríku aðgerða sem þau geta til að draga úr umferðartengdri loftmengun og að heimildir sveitarfélaga verði rýmkaðar enn frekar í lögum, svo þau geti brugðist skjótt við.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gefa lítið fyrir orð meirihlutans í borginni og segja í sinni bókun að það hafi verið samþykkt í upphafi kjörtímabilsins að svifryk færi aldrei yfir heilsuverndarmörk. Flokkurinn hafi komið með fjölmargar tillögur svo svifryk færi ekki yfir þau mörk. „Frá því þessi tillaga var lögð fram hefur svifryk farið ítrekað yfir heilsuverndarmörk, án þess að brugðist sé við á lausnamiðaðan hátt,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

Samkvæmt skýrslu sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vitnaði í frá Svíþjóð er enginn ávinningur af notkun nagladekkja á blautu og þurru malbiki.