Nagladekk slíta götum 40 sinnum meira en ónegld dekk samkvæmt nýrri norskri rannsókn. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun, segir að þrátt fyrir dæmi um fórnarkostnað sé til mikils að vinna að koma sem mest í veg fyrir nagladekkjanotkun.

Starfsmenn á borgarbílum hafa sjálfir gagnrýnt þá stefnu Reykjavíkurborgar að nánast engir bílar í eigu borgarinnar séu nú á nagladekkjum fyrir utan sorphirðubíla. Eftir að Fréttablaðið fjallaði um negld ökutæki á vegum borgarinnar á sama tíma og borgin hvatti einstaklinga til að láta af nagladekkjanotkun var ákveðið að aðeins sorphirðubílar yrðu á negldum dekkjum. Í gærmorgun var flughált og dæmi um árekstra, þar sem negld dekk hefðu hugsanlega getað komið í veg fyrir tjón. Morgunblaðið greindi frá því að starfsmaður sem sinnir heimahjúkrun á vegum Reykjavíkurborgar upplifði óöryggi í að vera ekki á negldum dekkjum.

Þorsteinn Jóhannsson hjá Um­hverfisstofnun segir að naglarnir geri sannarlega gagn við ákveðnar aðstæður, einkum á blautu svelli. Almennt sé þó vetrarþjónusta mjög góð í borginni og til mikils sé að vinna að hamla gegn svifryki sem kostar heilsu og tugi mannslífa ár hvert.

Í frumvarpi þingflokks Samfylkingarinnar um að sveitarfélög fái heimildir til að sekta vegna nagladekkja segir að naglar slíti malbiki allt að 20 sinnum meira en bílar á ónegldum dekkjum. Þorsteinn segir þetta mjög varfærna tölu.

„Nýlegar rannsóknir í Noregi sýna allt að fjörutíufaldan mun,“ segir Þorsteinn. Hann segir að út af slitinu einu og sér sé eðlilegt að ökumenn á negldum dekkjum greiði aukagjald umfram hina ónegldu.

„Varðandi slysin sýna rannsóknir að heilt yfir verða hugsanlega fleiri smávægileg óhöpp ef ekki eru naglar. Sumar rannsóknir sýna þó engan mun. Ein rannsókn í Finnlandi sýnir meiri slysatíðni hjá þeim sem aka úti á landi naglalausir,“ bætir Þorsteinn við.

Þorsteinn sér fyrir sér að ef frumvarp um gjaldtökuheimild sveitarfélaga fari í gegn muni varla nokkur sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins nýta sér heimildina, enda aðstæður gjörólíkar á Vestfjörðum eða á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu.

„Ef íbúi frá Ísafirði þarf að skreppa til Reykjavíkur á negldum dekkjum mætti útfæra gjaldtöku með dagspassa. Hann myndi kannski greiða 100 krónur fyrir heimsóknina eins og gjald í stöðumæli.“

Guðmundur Friðriksson, á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, segir að þrátt fyrir gagnrýni sé borgin á réttri leið.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, segir að borgin þurfi að sýna gott fordæmi. Allir sem aki innan þéttbýlis geti hætt að nota nagladekk.

„Ég þekki það vel sjálf, þar sem ég bý í efri byggðum. Fyrst var ég efins en áhyggjurnar voru óþarfi.“