Úrskurður Persónuverndar í máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara gegn Leikfélagi Reykjavíkur fór í bága við ákvæði reglugerðar um aðgerðir við einelti, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, að mati Atla Rafns, sem hefur stefnt Persónuvernd til ógildingar á úrskurðinum. Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Atla Rafni var sagt upp störfum fyrirvaralaust hjá leikfélaginu í desember 2017 vegna kvartana og ábendinga um meinta kynferðislega áreitni. Þeim sem kvörtuðu var lofað nafnleynd og þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir fékk Atli engar upplýsingar hjá vinnuveitanda sínum um hverjir kvörtuðu, hvers eðlis ásakanirnar voru eða hvenær meint áreitni hafi átt sér stað.

Leitaði Atli til Persónuverndar og óskaði liðsinnis við að fá aðgang að þeim upplýsingum sem um hann hafði verið aflað hjá leikfélaginu.  Persónuvernd úrskurðaði Leikfélaginu í vil á þeim forsendum að hagsmunir þeirra sem kvörtuðu yfir háttsemi Atla Rafns og var lofað nafnleynd af hálfu leikfélagsins hafi vegið þyngra heldur en hagsmunir hans af því að fá upplýsingar sem hann varði og urðu þess valdandi að hann missti starf sitt og æru.

Við þessa niðurstöðu er ekki hægt að una. Yrði hún staðfest er komin leið til þess að vega að mönnum úr launsátri, svipta þá atvinnu og æru, allt í skjóli nafnleyndar, sem stjórnvöld landsins leggja svo blessun sína yfir.

Í stefnunni er vísað til ákvæða fyrrnefndrar reglugerðar sem kveða á um virka aðkomu þess sem borinn er sökum um einelti, kynbundna áreitni eða ofbeldi og að þeim sem kvartanir beinist að skuli gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og þeir fái að tjá sig. Reglugerðin geri ekki ráð fyrir kvörtunum undir nafnleynd og þar af leiðandi geti hagsmunir kvartenda til nafnleyndar aldrei orðið meiri, en þess sem kvörtun beinist að.

„Við þessa niðurstöðu er ekki hægt að una. Yrði hún staðfest er komin leið til þess að vega að mönnum úr launsátri, svipta þá atvinnu og æru, allt í skjóli nafnleyndar, sem stjórnvöld landsins leggja svo blessun sína yfir,“ segir meðal annars í stefnunni.

Því hefur þegar verið slegið föstu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í janúar í fyrra að leikfélagið og þáverandi leikhússtjóri hafi ekki farið að lögum þegar Atla var sagt upp. Skylt hefði verið að gefa Atla kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og því hefði borið að upplýsa hann um eðli þeirra ásakana sem borist höfðu. Trúnaður gagnvart viðkomandi einstaklingum hafi hefði ekki mátt leiða til þess að réttarstaða Atla yrði lakari en lög geri ráð fyrir. Voru Atla dæmdar 5,5 milljónir í skaðabætur úr hendi leikfélagsins og leikhússtjórans.

Leikfélag Reykjavíkur hefur áfrýjað dóminum og bíður málið meðferðar í Landsrétti.