Margir hafa ef­laust tekið eftir því að nafnið Karen birtist æ oftar á sam­fé­lags­miðlum víðs vegar um heiminn í tengslum við fréttir af ó­lík­legasta tagi. Oftar en ekki er um­ræðu­efnið þó ekki um mann­eskju að nafninu Karen, heldur yfir­leitt um konu sem liggur ekki á skoðunum sínum og þykir al­mennt um­deild.

Skipta um nafn

Síðan nafnið varð sam­nefnari yfir hvítar for­réttinda­konur sem ýmist gerðust sekar um kyn­þátta­for­dóma, smá­muna­semi eða í­halds­semi, hafa Karenar um allan heim orðið skot­spónn brandara og á­sakana um á­líka hegðun. Ein­hverjar hafa jafn­vel tekið þá á­kvörðun að skipta um nafn.

Margrét Hauks­dóttir, for­stjóri Þjóð­skrár, segir ekki hafa borið á slíkum nafna­breytingum hér á landi þó ekki sé hægt að stað­festa það. Hún segist heldur ekki muna eftir því að tísku­bylgjur eða and­úð gagn­vart opin­berri per­sónu hafi orðið að bylgju í nafna­breytingum hér á landi síðustu árin.

Fjór­tán stúlku­börn hlutu nafnið Karen sem eigin­nafn hér á landi á síðasta ári og eru alls um 800 konur sem heita því nafni á Ís­landi. Nafnið nær því að komast á topp 50 listann yfir vin­sælustu nöfn landsins.

Vinsældir nafnsins hafa dalað nokkuð í gegnum árin en síðustu fjögur ár hafa sí fleir nefnt börn sín Karen.

Skömmuð fyrir að vera Karen

Blaða­maðurinn Karen Yoss­man skrifaði pistil um hvernig það væri að heita Karen í Banda­ríkjunum nú til dags í Was­hington Times. Þar sagðist hún hafa breytt nafninu sínu á sam­fé­lags­miðlum til að lenda ekki í að­kasti þegar hún setti inn at­huga­semdir við hin ýmsu mál.

„Þar er ég í­trekað skömmuð fyrir að vera „svona mikil Karen,“ skrifaði Yoss­man. „Það vill engin vera Karen,“ bætti hún við.

Á­stæða þess að nafnið Karen varð fyrir valinu liggur ekki fyrir en í Banda­ríkjunum hefur nafnið farið dvínandi í vin­sældum eftir að það náði há­punkti árið 1965. Ein­hverjir hafa því bent á að lík­legt sé að margar konur að nafninu Karen séu orðnar nokkuð rosknar og passi því inn í staðal­í­myndina sem búin hefur verið til fyrir fyrir­bærið „Karen.“ Þá er meiri­hluti þeirra sem bera nafnið hvítur.

Öðru­vísi á Ís­landi

Karen Björg Þor­steins­dóttir segir þessa nýju merkingu nafns síns ekki hafa haft mikil á­hrif á sitt dag­lega líf. Þá segist hún ekki hafa hugsað um að skipta nafninu út. „Ég hef aðal­lega lent í því að fólk er að grínast með þetta en ekkert al­var­legra en það.“

Hún bendir á að nafnið sé mun vin­sælla hjá yngra fólki á Ís­landi en það er í út­löndum. „Ég var einu sinni að vinna á bar og var að af­greiða banda­ríska konu og henni bara kross­brá þegar hún sá að ég héti Karen.“ Konan full­yrti því næst að enginn í hennar fylki undir fimm­tíu ára aldri bæri nafnið Karen.

„Ég kynni mig reyndar aldrei í út­löndum sem Karen með þessum banda­rískum hreim ég ber bara fram nafnið alveg eins og það er sagt hérna heima.“ Það sé mun gildis­hlaðnara að heyra nafnið með sterkum banda­rískum hreim.

Karen Björg Þor­steins­dóttir segist ekki vera Karen.
Mynd/Gunnlöð Jóna

Illa vegið að góðum Karenum

Karen viður­kennir þó að það sé frekar leiðin­legt að nafnið hennar hafi hlotið svo slæma merkingu. „En ég sé mig svo sem ekki sem hluta af hópi kvenna sem heita Karen heldur er þetta svo­lítið ein­stak­lings­bundið.“ Það sé því ekki hægt að taka þessu of per­sónu­lega.

„Auð­vitað er fullt af hrút­leiðin­legu fólki sem heitir Karen og þá er líka bara allt í lagi að taka það á mig,“ segir Karen.

„Það er vissu­lega líka illa vegið að góðum Karenum um allan heim.“

Tengir ekkert við um­rædda Karen

Þá tekur hún fram að hún sam­sami sig alls ekki við þær Karenar sem fara nú mikinn á sam­fé­lags­miðlum. Þvert á móti finnur hún sig nú knúna til að sýna fram á að hún sé svo sannar­lega ekki á þeirra máli.

„Ég er farin í þann gírinn að vera extra, extra vin­sam­lega í Bónus og á veitinga­stöðum og svona.“ Allt sé gert til að vera góður full­trúi Karena. „Ég ét bara hárin sem koma með matnum kvartana­laust núna,“ segir Karen hlægjandi.

Bar­r­áttan um að breyta við­horfi til nafnsins er þó nokkuð strembin og leggur Karen til að nýtt nafn verði tekið til notkunar. „Ég vil meina að ís­lenska Karen ætti að vera Sig­þrúður.“