Norski ríkisfjölmiðillinn NRK nafngreindi í dag grunaðan tilræðismann norska bókaútgefandans Williams Nygaard. Sá grunaði heitir Khaled Moussavi og er búsettur í Líbanon. Norska lögreglan sakaði árið 2018 tvo aðila um aðild að morðtilræðinu en nafngreindi þá ekki á þeim tíma.

Morðtilræðið gegn William Nygaard átti sér stað í október 1993 og skók norskt þjóðfélag á þeim tíma. Tilræðið snerist um það að bókaforlag Nygaards, Aschehoug, hafði gefið út norska þýðingu á skáldsögunni Söngvum Satans eftir bresk-indverska rithöfundinn Salman Rushdie.

Söngvar Satans var sérlega umdeild bók meðal múslima vegna umfjöllunar hennar um Múhameð spámann, sem verður á vegi aðalpersónanna og er sýndur sem nokkuð breysk persóna. Deilurnar um bókina leiddu til þess að Ruhollah Khomeini, æðstiklerkur Írans, gaf árið 1989 út yfirlýsingu þar sem hann lýsti Rushdie og aðra sem hefðu komið að útgáfu og dreifingu bókarinnar réttdræpa.

William Nygaard var skotinn þrisvar sinnum í bakið fyrir utan heimili sitt í Ósló þann 11. október 1993. Nygaard lifði árásina af og er enn á lífi í dag. Tilræðismennirnir fundust aldrei en flestum þótti ljóst að árásin tengdist dauðadóminum gegn Rushdie og öðrum sem tækju þátt í dreifingu skáldsögunnar umdeildu. Árásin var skipulögð í þaula og meðal annars höfðu dekkin á bík Nygaards verið skorin til þess að halda honum uppteknum fyrir utan hús sitt.

NRK tók viðtal við Moussavi á heimili hans í Beirút. Greindi hann þeim frá því að hann hafi verið yfirheyrður á sínum tíma því hann þótti líkjast teikningu af byssumanninum sem gerð hafði verið eftir lýsingu vitna. Áður hafði Moussavi verið yfirheyrður í tengslum við ábendingu frá samstarfsaðilum norsku lögreglunnar í Svíþjóð og Þýskalandi um að hann væri þátttakandi í uppbyggingu norskrar deildar sjíaíslömsku hernaðarsamtakanna Hizbollah.

Moussavi var vísað frá Noregi árið 1996. Hann segist ekkert vita um tilræðið gegn Nygaard og segist jafnframt ekki hafa verið virkur innan Hizbollah-samtakanna, sem njóta talsverðra áhrifa í Líbanon.