Maðurinn sem lést á Litla-Hrauni á skírdag hét Pétur Áskell Svavarsson og var fertugur að aldri. Þetta kemur fram á vef DV.

Í lok mars á þessu ári var Pétur fluttur á sjúkrahús vegna hjartastopps og var hann nýútskrifaður af Landspítala þegar hann lést. Samfangar Péturs lýstu því í samtali við Fréttablaðið að hann hafi hlotið slæma meðferð í kjölfar hjartastoppsins.

Pétur fannst látinn í klefa sínum á fimmtudagsmorgun en ekki er talið að and­l­­át­­­ið hafi bor­­­ið að með sak­­­næm­­­um hætt­­­i. Málið verður þó rannsakað af lögreglu.

Vinir Péturs halda því fram að Pétur hafi ekki fengið nauðsynlega læknisaðstoð og verið útskrifaður alltof snemma af Landspítalanum. Hann hafi verið útskrifaður um leið og hann fékk meðvitund og í kjölfarið vistaður í einangrun, án eftirlits. Hann hafi kvartað undan verkjum í aðdraganda andlátsins en enga hjálp fengið.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, kveðst ekki geta tjáð sig um einstaka mál fanga en staðfestir að Landspítalinn sjái sjálfur um að útskrifa sjúklinga sína. Fangaverðir eða fangelsisyfirvöld hafi ekki ákvörðunarvald um hvenær aðilar séu útskrifaðir af spítala.