Það mátti litlu muna að illa færi þegar Hjalti Ás­geirs­son sveigði fram hjá hestum sem gengið höfðu út á þjóð­veginn við Kjalar­nes, fyrr í vikunni. „Þetta hefði getað endað verr, við værum ekki að tala saman í kvöld ef þetta hefði gert það,“ segir Hjalti við blaða­mann Frétta­blaðsins.

„Manni brá svo­lítið en sem betur fer var ég með augun á veginum og náði að sveigja frá,“ segir Hjalti en hann hafði verið búinn að keyra í fimm klukku­stundir þegar hann lendir í þessu at­viki.

Á Face­book síðu hans deilir Hjalti mynd­bandi af at­vikinu. Sjá má að minnsta kosti þrjá hesta ganga út á veginn. Hjalti var með snögg við­brögð og, sem fyrr segir, náði að sveigja frá hestunum.

„Ég hringdi strax á lög­regluna og lét vita að þessu og svarið sem ég fékk var: „Ha, aftur?“ Það hefur verið búið að redda þessu og þeir hafa sloppið aftur hestarnir,“ segir Hjalti.

„Það var náttúru­lega niða­myrkur og ég er með svona létta nætur­blindu, að það hjálpar ekki þegar það kemur svartur hestur á veginn fyrir framan mann.“

Hjalti þakkar fyrir góð við­brögð en segist ekki hafa verið eins fljótur að sjá hestana og mynda­vélin í bílnum. „Bíllinn byrjaði að pípa. Teslan byrjaði að vara mig við þegar ég var að sveigja frá. Við föttum þetta á sama tíma, virðist vera,“ segir hann.