Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir ánægjulegt að sjá að smitum á kórónaveirunni hafi fækkað í dag frá því í gær. Ekki sé hins vegar hægt að lesa út úr þeirri niðurstöðu að toppnum á faraldrinum hafi verið náð.

„Maður spyr sig hvort þetta sé ranveruleg lækkun en ég held það sé of snemmt að segja til um það. Næstu dagar munu skera úr um hvort við séum búin að ná toppi eða ekki. Það væri svo sem óskandi að svo væri," sagði Þórólfur á daglegum fundi Almannavarna í dag.

Alls greindust 24 ný smit kórónaveirunnar sem veldur sjúkdóminum COVID-19 síðastliðinn sólarhring og eru greind smit því orðin 1.586 talsins. Færri smit hafa ekki greinst á einum sólarhring frá 22. mars síðastliðinn þegar 22 smit greindust.

„Um 5 prósent þjóðarinnar er í sóttkví eða hefur verið í sóttkví, sem er alveg ótrúlegt hlutfall. Vinna er í gangi þessa stundina hvað varðar útfærslu á samkomubanni eftir að núverandi banni lýkur 4. maí næstkomandi og mótttöku ferðamanna hingað til lands næstu vikurnar. Við munum kynna næstu skref eftir páska," segir sóttvarnarlæknirinn um framhaldið.