Næsta vika eða tvær munu ráða úr­slitum um það hvort slakað verði aftur á sam­komu­tak­mörkunum eða hert enn meira á þeim. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að árangur þeirra tak­markana, sem tóku gildi á há­degi í dag, ætti að skýrast á einni til tveimur vikum.

„Það er mér al­ger­lega ljóst að þessar að­gerðir, sem er verið að grípa til núna og tóku gildi í há­deginu eru mjög í­þyngjandi fyrir marga en þær eru al­gjör­lega nauð­syn­legar til að forða okkur frá út­breiddum far­aldri og al­var­legum af­leiðingum hans,“ sagði Þór­ólfur á fundinum.

„Við þurfum hins vegar að vera til­búin að bregðast jafn­vel enn harðar við ef það er ljóst að þessar að­gerðir muni ekki skila árangri,“ hélt hann á­fram. Þannig yrðu stjórn­völd til­búin að annað hvort grípa til harðari að­gerða ef þessar skila ekki árangri eða „slaka til­tölu­lega fljótt á þessum að­gerðum“ ef þær sýna árangur.

Tveir stofnar veirunnar

Hann sagði þá að flest innan­lands­smitin, sem hafa greinst síðustu vikuna, mætti rekja til tveggja hóp­sýkinga. Sitt­hvor stofn veirunnar hefur greinst í hóp­sýkingunum og sagði Þór­ólfur að afar lík­legt væri að hægt hefði verið að koma í veg fyrir aðra hóp­sýkinguna með þeim reglum sem tóku gildi í dag; um að þeir ferða­menn sem koma til landsins frá á­hættu­svæðum og dvelja í tíu daga eða lengur þurfi að fara í aðra sýna­töku og við­hafa heim­komu­smit­gát.

„Í hinni hóp­sýkingunni, sem er öllu út­breiddari, hefur ekki tekist að rekja upp­runa smitsins en flest smit hér innan­lands tengjast þessari hóp­sýkingu,“ sagði Þór­ólfur. „Engin tengsl eru á milli ein­stak­linganna sem eru alveg ljós og leiðir af því að út­breiðsla gæti verið meiri en við vitum um.“

Þar sem ekki er vitað um upp­runa þeirrar hóp­sýkingar sagði hann að ekkert væri hægt að segja til um hvort hægt hefði verið að stoppa hana með víð­tækari skimun við landa­mærin, sem tók gildi í dag.

Hann brýndi svo fyrir lands­mönnum að á­fram væri einn mikil­vægasti þátturinn í bar­áttu við út­breiðslu veirunnar að huga að ein­stak­lings­bundnum sótt­vörnum og virða fjar­lægðar­tak­mörk.