Japanska útgáfan af Best Car Magazine telur sig hafa heimildir fyrir því að næsta kynslóð Lexus IS bílsins muni fá 3,0 lítra bensínvél frá BMW. Þar væri um að ræða sömu forþjöppudrifnu B58 vélina sem finná má í nýja Toyota Supra bílnum og BMW Z4. Með þessari ráðstöfun yrði framhald á samstarfi Toyota/Lexus og BMW líkt og með sameiginlegri smíði Supra/Z4 bílsins. 

Þessi vél yrði ekki sú eina sem í boði yrði í bílnum, heldur einnig 2,0 og 2,4 lítra vélar, sem og 2,5 lítra vél með rafmagnsaðstoð sem yrði í boði á nokkrum bílamörkuðum heims. Þá fengi Lexus IS F kraftaútgáfan sömu vél og er nú í Lexus LS bílnum, sem er 416 hestöfl og yrði hún tengd við 10 gíra sjálfskiptingu. 

Næsta kynslóð Lexus IS á að verða að sömu stærð og núverandi kynslóð, en bíllinn mun samt léttast um 155 kíló. Búist er við því að Lexus muni kynna nýja kynslóð af IS bíl sínum á seinni hluta næsta árs og að Lexus IS F sjái ekki dagsljósið fyrr en árið 2021. Með þessum breytingum á aflrás Lexus IS verður bíllinn mun hæfari til að keppa við BMW 3 og aðra lúxusbíla svipaðrar stærðar.