Theresa May, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, segir að næsti Brexit-samningur verði bragar­bót frá þeim fyrri. Sá verður væntan­lega lagður fyrir neðri mál­stofu breska þingsins í júní.

Í grein í Sunday Times skrifar hún að um sé að ræða „djarf­legan“ og mun betri samning en þann sem felldur var þrí­vegis í jafn­mörgum at­kvæða­greiðslum fyrr á árinu.

Þar biðlar May til þing­manna að líta nýjan samning opnum augum. Þar sé meðal annars kveðið á um bætta lög­gjöf og vernd verka­manna. Er það einkum gert til að freista Verka­manna­flokksins sem ný­verið sleit við­ræðum við ríkis­stjórn May um lendingu í Brexit-bægsla­gangnum.

Að sögn May verða greidd at­kvæði um nýjan samning í vikunni 3. til 9. júní en neðri mál­stofa breska þingsins kemur saman 4. júní. Bretar taka þátt í kosningum til Evrópu­þings sem fram fara næstu helgi.

Út­göngunni hefur tví­vegis verið frestað en upp­runa­lega stóð til að Bretar yfir­gæfu Evrópu­sam­bandið 29. mars síðast­liðinn, tveimur árum eftir að 50. grein Lissabon­sátt­málans um út­göngu var virkjuð. Í kjöl­farið var út­göngunni frestað um fá­einar vikur en loks aftur og er settur út­göngu­dagur nú 31. októ­ber.