Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að borgarstjórn hafi staðið sína vakt með því að skipuleggja land og auka framboð á húsnæði. Það sé ekki pólitískum ákvörðunum borgarinnar að kenna að framboð íbúða til sölu sé nú í sögulegu lágmarki.

Víða um land sé sömu sögu að segja, nánast engar eignir séu á skrá. Sjaldan hafi verið byggt meira í Reykjavík en það hafi ekki dugað til.

Flestum greinendum beri saman um að vaxtalækkun og gríðarleg útlán til heimila án þess að sambærileg aukning hafi orðið á lánum til íbúðauppbyggingar sé lykill að því að skilja ójafnvægið milli framboðs og eftirspurnar.

„Við erum núna að kynna tíu ára sýn varðandi lóðaúthlutanir og skipulagssvæði,“ segir Dagur. „Þetta gríðarlega vaxtartímabil sem við höfum orðið vitni að síðastliðin fimm ár mun ekki hara halda áfram heldur verður bætt í.“

Dagur segir að stefna borgarinnar og þau svæði og uppbyggingarmöguleikar sem borgin sé að tefla fram undirstriki að næsti áratugur verði áratugur Reykjavíkur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Fjármálastofnanir ráði þó alltaf miklu um hraða uppbyggingar með lánum til framkvæmda. Ríkisvaldið ákveði framboð stofnframlaga fyrir óhagnaðardrifin félög.