Framkvæmdir við loftsíustöð svissneska fyrirtækisins Climeworks í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði eru langt komnar og stefnt er að því að hefja reksturinn fyrrihluta júnímánaðar. Mun stöðin geta hreinsað 4 þúsund tonn af koldíoxíði úr andrúmsloftinu á hverju ári, sem er mun meira en tilraunastöð Climeworks hefur gert síðan 2017, það er 50 tonn.

Samhliða fönguninni mun Carbfix, dótturfélag OR, dæla bæði koldíoxíðinu og brennisteinsvetni úr Hellisheiðarvirkjun niður í bergið.„Þessi tækni er enn þá að taka sín fyrstu skref,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carb­fix. „Verkefnið á Hellisheiði er fyrsta sinnar tegundar í heiminum.“

Ýmis fyrirtæki eru nú að prófa sig áfram með kolefnisföngun (e. direct air capture), þar á meðal kanadíska fyrirtækið Carbon Iceland sem hyggst reisa föngunarstöð á Bakka við Húsavík. Blæbrigðamunur er hins vegar á tækninni og hvert fyrirtæki með sitt einkaleyfi.Hægt er að lýsa vélunum sem nokkurs konar ryksugum sem innihalda efnasambönd sem koldíoxíðið festist á.

Til að aðskilja er efnið svo hitað og Carbfix og dælir því niður í bergið þar sem það herðist.Edda segir stærstu áskorunina vera kostnaðinn og að það þurfi að ná honum niður til að þessi lausn verði raunhæf á stórum skala.

„Að hreinsa koldíoxíð úr andrúmslofti er mjög dýrt. Þess vegna er mikilvægt að byggja upp fleiri og stærri verkefni til þess að ná fram meiri hagkvæmni,“ segir Edda.

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carb­fix.

„Það er alltaf dýrara að hreinsa upp en koma í veg fyrir losun.“ Horft sé til þess að eftir nokkur ár geti kostnaðurinn við hvern tank orðið 100 dalir en verðið þarf að lækka enn meira.Kjör forsetans Joes Biden hefur gefið kolefnisföngun nýtt líf í Bandaríkjunum og stjórn hans lofað fjárveitingum til þess að þróa tæknina.

Vegna þessa hafa fjárfestar og sprotafyrirtæki vestra sýnt föngun aukinn áhuga. Kaliforníufylki er meðal þeirra sem hyggjast koma sér upp stórum föngunarstöðvum, sem gæti orðið stærsta framkvæmdin í sögu fylkisins. Lýsti Rajinder Sahota hjá loftslagsráði Kaliforníu því yfir að þetta yrði að gerast á þessum áratug til þess að fylkið næði loftslagsmarkmiðum sínum um miðja öldina.

Edda er á sama máli um hversu brýnt þetta sé. „Það skiptir mjög miklu máli að við notum þennan áratug til að bæta þær tæknilausnir sem eru þegar til. Bæði til að hindra losun og til að fanga það sem þegar er komið út í andrúmsloftið,“ segir hún.

„Ef við sækjum ekki fram í þessum flokkum á stórum skala munum við ekki ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.“ Ef allt gengur sem skyldi gæti föngun koldíoxíðs orðið stór breyta í loftslagsbaráttunni um miðja öldina.Í Bandaríkjunum hefur verið horft til þess að nýta efni úr fönguninni, meðal annars til að vinna plast og steypu.

Edda segir það jákvætt að efnið sé nýtt í framleiðslu á vörum. „Þetta getur þó aldrei verið nema lítill hluti því eftirspurnin er ekki nema um tíu prósent. Því skiptir miklu að byggja upp varanlega förgun efnisins,“ segir hún.