Sýnatökum vegna Covid-19 fækkaði talsvert yfir verslunarmannahelgina en fjölgaði á mánudag. Upplýsingafulltrúi almannavarna segir að þróunin í næstu viku komi til með að varpa ljósi á fjórðu bylgju faraldursins.

Um þrjú þúsund manns höfðu skráð sig í skimun fyrir Covid-19 í dag, þegar Fréttablaðið náði tali af Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Þar af eru 1.700 skráðir í einkennasýnatöku og hinir að skrá sig í sóttkví. Það er kannski örlítið meira en hefur venjulega verið, en samt minna en var núna í síðustu viku á þessum tíma dags. Það hefur því ekki orðið nein hol­skefla eftir verslunarmannahelgi.“

„Staðan er sérstök fyrir þær sakir að við erum í verslunarmannahelgi og þá er kannski eðlilegt að það hafi verið færri sýnatökur heldur en í síðustu viku, en þó alveg mörg sýni,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, um stöðuna í kórónuveirufaraldrinum.

„Maður hefur séð það á röðunum við Suðurlandsbrautina að fólk er að fara í sýnatöku, sem er jákvætt og við búumst við að í næstu viku muni bætast verulega í það. Tölurnar síðustu tvo daga eru kannski ekki alveg það sem við höldum að verði í næstu viku. Auðvitað vona allir hið besta en búast frekar við hinu versta. Það er pínu eðli okkar vinnu. Við allavega erum tilbúin í að í næstu viku verði fleiri smit heldur en hefur verið síðustu tvo daga, án þess að maður viti neitt.“

Hjördís telur að þróunin í næstu viku muni varpa frekara ljósi á það hverjir verði í áhættuhópum vegna Delta-afbrigðis kórónaveirunnar og gefa þannig skýrari mynd af þessari fjórðu bylgju Covid-faraldursins. Óskar segir að venjulega fjölgi skráningum í skimun eftir helgar og að viðbúið hafi verið að fjölgun yrði mikil eftir frí- og hátíðardaga eins og verslunarmannahelgina.

„En einmitt núna eru engin merki um neitt annað en það sem hefur verið. Fólk er mjög samviskusamt með að koma í skimun og við erum að vinna í að tryggja mönnun, sem er alltaf áskorun.Við erum aðeins að fjölga starfsfólki í næstu viku, sérstaklega í sýnatökurnar á Suðurlandsbraut. Þegar fjöldi skráninga er orðinn svona dag eftir dag verðum við að bregðast við til að geta stytt biðraðirnar og biðtímann í skimun.“

Einn liggur í öndunarvél á Landspítala vegna Covid-19, í fyrsta sinn sem slíkt hefur þurft í fjórðu bylgju faraldursins. Fimm voru lagðir inn á spítalann í fyrradag og einn í gær. Nú eru sextán inniliggjandi, þar af tveir á gjörgæslu. Unnið er að opnun nýrrar Covid-deildar á spítalanum.