Að sögn talsmanna Jeep er útlit jeppans að nokkru leyti byggt á Wagoneer en hann er með lægri vélarhlíf og lægri þaklínu en áður. Bíllinn hefur verið endurbyggður með tilliti til sterkari yfirbyggingar með hágæða stáli og þá sérstaklega við vélarsalinn sem er 125% stífari en áður. Komin er fjölliða fjöðrun að aftan sem bætir bæði þægindi og aksturseiginleika. Hægt er að velja um annað hvort sex eða sjö sæta útgáfur. Innréttingin fær 10,25 tommu skjá fyrir framan ökumann og 10,1 tommu upplýsingaskjá. Auk þess verður hann búinn framrúðuskjá og stafrænum baksýnisspegli.

Innréttingin verður með tveimur litaskjám sem hvor um sig er rúmlega 10 tommur.

Hægt verður að velja um tvær vélar, 3,6 lítra V6 vél sem skilar 286 hestöflum og 5,7 lítra V8 vél með 352 hestöfl og 528 newtonmetra togi. Báðar nota átta þrepa sjálfskiptingu og getur V8 vélin slökkt á fjórum strokkum við minna átak og sparað þannig allt að 20% af eldsneytisnotkun. Þá getur bíllinn aftengt framdrifið við sömu aðstæður til að minnka álag enn frekar. Tengiltvinnútgáfa verður í boði í framhaldinu þótt ekkert hafi verið gefið upp um tæknibúnað hennar enn.