Þrátt fyrir að innan við 1% bíla sem Mercedes-Benz selur séu sportbílar hefur það ekki aftrað merkinu frá því að eyða stórum upphæðum í hönnun þeirra. Nýjasta viðbótin í þeim flokki er AMG-SL sem ásamt AMG-GT er byggður á nýjum MSA undirvagni. Grunnurinn að þeim undirvagni er létt álgrind og situr endurhönnuð yfirbyggingin ofan á honum með blöndu af áli, stáli, magnesíum og koltrefjum. Mercedes-Benz SL er fjögurra sæta og með blæju sem fellur ofan í skottið, og er búnaðurinn 21 kílói léttari en í fyrri kynslóð. Þar sem að undirvagninn er skalanlegur má búast við að fleiri gerðir muni nýta sér hann og hann getur nýtt sér marga aflgjafa.

Stór 11,9 tommu upplýsingaskjár er áberandi í miðjustokki bílsins.

Nýr SL er kynntur með tveimur V8 vélum en Mercedes hefur einnig sagt að von sé á tengiltvinnútgáfu í framtíðinni. Báðar útgáfur V8 vélanna eru fjögurra lítra með tveimur forþjöppum, en SL55 útgáfan er 469 hestöfl og 3,9 sekúndur í hundraðið. Öflugri SL63 útgáfa hefur 577 hestöfl að spila úr og 800 Nm tog, enda er hröðunin 3,6 sekúndur í hundraðið og hámarkshraðinn 314 km á klst. Nýr SL er í fyrsta sinn boðinn með fjórhjóladrifi og er SL63 útgáfan boðin með vökvastýrðu jafnvægiskerfi ásamt stillanlegri fjöðrun og tregðulæsingu á afturási. Hægt er að panta slíkan búnað fyrir SL55 sem aukabúnað. Fjórhjólastýring er einnig í boði í báðum gerðum hans. Í innréttingu hans er stór miðjustokkurinn áberandi með 11,9 tommu MBUX upplýsingaskjá. Bíllinn fer í sölu á vordögum í Evrópu en við eigum enn eftir að sjá hvort eintak nái hingað til lands.