Breytingar á íbúafjölda sveitarfélaga eru mjög mismunandi eftir manntalið í nóvember þar sem kom í ljós að Íslendingar voru oftaldir um 10 þúsund manns.

Í langflestum varð fækkun, þar af öllum fjölmennustu sveitarfélögum landsins.

Mismunurinn var skýrður á þá leið að fólk hefði flutt úr landi án þess að láta kóng né prest vita. Einkum fólk af erlendum uppruna, til dæmis frá Póllandi, sem hefði snúið aftur til heimalandsins þegar syrti í álinn atvinnulega séð í faraldrinum hérlendis.

Af fjölmennustu sveitarfélögunum varð ein mesta hlutfallslega breytingin í Reykjanesbæ. Þar fækkaði íbúum um 958 eða 4,9 prósent. Það er svipaður fjöldi og í Kópavogi en hlutfallið þar 2,6 prósent.

Fækkunin í Reykjavík var 2.264 en hlutfallslega aðeins 1,7 sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Hafnfirðingum, sem hefur fækkað á undanförnum árum, fækkar um 674 og eru nú aðeins 29.012 en í október árið 2019 fögnuðu þeir Hafnfirðingi númer 30 þúsund.

Eins og gefur að skilja eru mestu skekkjurnar í fámennustu sveitarfélögunum.

Fækkunin er mest í Skagabyggð, 20,7 prósent en þó aðeins fækkun um 19 sálir. Íbúum Skorradalshrepps fjölgaði um 11, það er 16,7 prósent.