68 heil­brigðis­starfs­menn í Malaga á Spáni hafa greinst já­kvæðir með Co­vid í kjöl­far jóla­skemmtunar sem haldið var síðasta mið­viku­dag. Flestir hinna smituðu eru læknar og hjúkrunar­fræðingar á gjör­gæslu­deild svæðis­sjúkra­hússins í Malaga.

Um 170 manns mættu í jóla­skemmtunina og höfðu þeir allir skilað inn nei­kvæðum hrað­prófum fyrir við­burðinn. Að sögn heil­brigðis­yfir­valda á Spáni eru allir hinna smituðu full­bólu­settir og ein­kenna­lausir.

Læknar og hjúkrunar­fræðingar frá öðrum deildum svæðis­sjúkra­hússins munu leysa af hina smituðu á meðan þeir klára ein­angrun.

Að sögn BBC hafa smitin aukið mjög á­hyggjur á Spáni um á­hættuna á því að dreifa Co­vid á við­burðum í kringum jólin. Til að bregðast við þeirri á­hættu hafa heil­brigðis­yfir­völd í Anda­lúsíu ráð­lagt heil­brigðis­starfs­fólki að mæta ekki í jóla­boð.

Á mánu­dag hvatti for­sætis­ráð­herra Spánar, Pedro Sánchez, fólk til að fara var­lega yfir há­tíðirnar.

„Við megum ekki sofna á verðinum,“ sagði hann við blaða­menn í Madríd.

Mikil aukning smita hefur mælst í Spáni á undan­förnum vikum rétt eins og í öðrum Evrópu­löndum. Spán­verjar binda þó vonir við að bólu­setningar muni hjálpa þeim að komast út úr far­aldrinum en um 74 prósent þjóðarinnar er full­bólu­sett auk þess sem 9 prósent hafa fengið örvunar­skammt, sam­kvæmt nýjustu tölum.