Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, segir að loftslagsbreytingar muni óhjákvæmilega leiða til þess að 460 jöklar sem séu á heimsminjaskrá verði horfnir fyrir árið 2050.

Að því er segir í umfjöllun spænska blaðsins El País er þessi staða komin upp vegna áratuga skeytingarleysis gagnvart viðvörunum vísindamanna um gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda sem streyma út í andrúmsloftið og valda hlýnun jarðar sem jafnvel geti tekið árþúsund að vinda ofan af. Jöklar séu meðal þess sem er í mestri hættu. UNESCO hefur gert rannsókn á fimmtíu svæðum sem eru á heimsminjaskrá og þar sem eru jöklar. Niðurstaðan er sú að á sautján af þessum stöðum verði jöklar horfnir árið 2050 sama hvað að verði gert héðan af

Samtals er um að ræða 460 jökla sem þurrkast út af heimskortinu, vitnar El País til skýrslu UNESCO. Þar á meðal eru síðustu jöklar Afríku sem eru á Kilimanjaro og í Ruwenzori-Virunga í Mið-Afríku. Þá munu jöklar í Dólómítafjöllunum í Evrópu hverfa, í Pýreneafjöllunum milli Spánar og Frakklands og úr Yellowstone- og Yosemite-þjóðgörðunum í Bandaríkjunum.

Þá kemur fram í umfjöllun El País að í augnablikinu séu alls 200 þúsund jöklar í heiminum, þar af um 18.600 á stöðum á heimsminjaskrá. Þótt rýrnun jökla hafi orðið á þessum stöðum hafi hún á 21. öldinni orðið mest á Íslandi, Grænlandi og í Norður-Ameríku.