Útgjöld til velferðarríkisins á Íslandi eru minni að vöxtum en á hinum Norðurlöndunum á nær öllum sviðum velferðarmála samkvæmt nýrri rannsóknarskýrslu Eflingar. Félagið véfengir réttmæti þess að Ísland standi undir þeirri nafnbót að teljast norrænt velferðarríki.

„Það komu fram sláandi upplýsingar í þessari skýrslu Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors. Hana þarf að rýna vel,“ segir Vilhjálmur Birgisson hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Vilhjálmur nefnir að þróun barnabóta sé ömurleg hér á landi. Skerðingarmörk séu allt of lág. Í skýrslunni er staðfest að barnabætur séu óvenjulágar núorðið á Íslandi. „Áður stóð Ísland betur að vígi í samanburði á útgjöldum til velferðarþjónustu, en þar hefur hallað á.“

Þá segir í skýrslunni að opinber útgjöld í lífeyrisgreiðslum séu óvenju lág á Íslandi í samanburði við öll OECD-ríkin. Sláandi sé að skoða samanlögð opinber útgjöld vegna örorku- og ellilífeyris. Ísland sé þar með fimmtu lægstu útgjöldin í alþjóðasamanburði í félagsskap með þróunarlöndum eins og Mexíkó og Kosta Ríka.

Drífa Snædal, forseti ASÍ
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þetta er það sem við þurfum að ræða við stjórnvöld,“ segir Vilhjálmur. „Að við sem ein ríkasta þjóð í heimi séum í flokki með þessum löndum sýnir að tilfærslukerfin virka ekki nógu vel gagnvart hópum sem standa höllustum fæti.“

Undir þetta tekur Drífa Snædal, forseti ASÍ. Hún segir skýrsluna knýja á breytingar. Kallað hafi verið eftir að skattkerfi og tilfærslukerfi séu nýtt til tekjujöfnunar með markvissari hætti.

„Það er einkenni velferðarríkja og býr til betri samfélög fyrir okkur öll þegar upp er staðið,“ segir Drífa.