Sjálfstæðisflokkurinn hefur margsinnis ályktað á landsfundum sínum að ríkið skuli ekki reka fjölmiðil.

Í landsfundarályktun flokksins frá því í nóvember segir:

„Allar forsendur ríkisrekins fjölmiðils, sem áttu við fyrir tæplega 100 árum, eru brostnar og tilvist slíks fjölmiðils er tímaskekkja. Hætta á fjárhagslegum stuðningi við rekstur RÚV og kanna hvort rekstrinum sé að öllu leyti eða hluta til betur komið í höndum einkaaðila. Þannig verður sterkari stoðum rennt undir tilvist einkarekinna fjölmiðla í stað beinna ríkisstyrkja.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarpið.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við Fréttablaðið 17. desember síðastliðinn að honum þætti „æskilegt að kippa RÚV út af auglýsingamarkaði, vandinn póli­tískt er hvað ætti að gera í staðinn.“

Hann bætti því við að í þingflokki Sjálfstæðismanna væri einhugur um að hækka ekki útvarpsgjaldið, en tillaga um slíka hækkun var samþykkt við afgreiðslu fjárlaga.

Lilja Alfreðsdóttir hefur farið með málefni RÚV í ríkisstjórn frá 2017. Hún hefur ítrekað lýst því yfir að hún hyggist taka ríkismiðilinn af auglýsingamarkaði en ekkert hefur hreyfst í þeim efnum í meira en fimm ár.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að RÚV eigi að vera hrein samfélagsstofnun.
Fréttablaðið/Valli

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, er efins um að breytingar verði varðandi RÚV í tíð þessarar ríkisstjórnar, eins og mörg önnur mál bíði það annarrar stjórnar.

„Ég tel að Ríkisútvarpið hafi umtalsverðu hlutverki að gegna á sviði menningar og þjóðmálaumræðu,“ segir Þorsteinn. „Það hefur staðið sig með ágætum í ljósi aðstæðna. En það er í klípu. Hún liggur í því að samkvæmt lögum er Ríkisútvarpinu ætlað að vera hvort tveggja í senn; samfélagsstofnun og markaðsfyrirtæki. Slík skipan er hálfgerður óskapnaður og gengur ekki upp í samkeppnisumhverfi samtímans. Annað hvort á að reka það sem hreina samfélagsstofnun eða hreint markaðsfyrirtæki. Mín skoðun er að það eigi að vera samfélagsstofnun. Því má ná í áföngum á nokkrum árum. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segjast vera á þessari skoðun en viti bara ekki hvernig þeir eigi að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Á því geta verið tvær skýringar. Önnur er sú að hugur fylgi ekki máli. Hin er að VG sé þrándur í götu. Ég átta mig ekki á því hvor skýringin er sú rétta. En auðvitað má vera að í raun og veru líki þeim best við styrkjakerfi og úthlutanir. Þetta virðist einfaldlega vera eitt af fjölmörgum málum, sem bíða annars konar ríkisstjórnar.“