Deilurnar milli Hreggviðs Hermannssonar, sem býr að Langholti 1, og nágranna hans, Ragnars Vals Björgvinssonar og Fríðar Sólveigar Hannesardóttur að Langholti 2, hafa staðið yfir um árabil.

Þær hófust þegar Ragnar og Fríður fóru í mál við Hreggvið út af veiðiréttindum í Hvítá og hafði Hreggviður betur í þeirri byltu fyrir rétti. Í dag snýst deilan, í einfölduðu máli, um landamerki vegna makaskipta sem Hreggviður gerði á landskikum við fyrri eiganda jarðar þeirra Ragnars og Fríðar. Sú deila er fyrir dómi hjá Landsrétti en Ragnar og Fríður höfðu betur í þeirri glímu í héraði.

Að heimili Ragnars og Fríðar eru tvær innkeyrslur, önnur liggur í gegnum nefndan skika sem Hreggviður fullyrðir að sé í sinni eigu. Slóðinn er skilgreindur sem héraðsvegur hjá Hreggviði sem hann segir ekki geta staðist fyrir dómi. Hreggviður segist hafa lokað aðkeyrslunni með vír eða bandi í mörg hundruð skipti en hjónin og lögreglan skeri jafnharðan á hindrunina.

„Ég hef skráð hjá mér hversu oft lögreglan hefur komið á undanförnum sex árum og telst til að það sé í 360 skipti. Það get ég þó ekki sannreynt því að ég fæ ekki aðgang að gögnum lögreglu og bera þeir fyrir sig umfang þessara gagna. Það segir ýmislegt,“ segir Hreggviður og bætir við að hann efist um að til séu harðsvíraðir glæpamenn sem hafi fengið jafnmargar heimsóknir frá lögreglu.

Reglulega hefur soðið upp úr. Þannig var Hreggviður dæmdur í 30 daga fangelsi í héraði í janúar 2018 fyrir þjófnað á tíu bráðabirgðastaurum og sófasetti auk þess að snúa upp á handlegg Fríðar Sólveigar í eitt skipti. Hann var sýknaður í Landsrétti.

Ragnar Valur var síðan dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi um mitt ár 2019 fyrir að hafa keyrt á Hreggvið í lok árs 2017. Þeim dómi hefur Ragnar áfrýjað til Landsréttar.

Í mars í fyrra gaf Lögreglustjórinn á Suðurlandi út ákæru í fjórum liðum á hendur Hreggviði fyrir eignaspjöll og brot á vega- og umferðarlögum. Ástæðan fyrir því að embættið var úrskurðað vanhæft í héraði var sú að tveir af þremur starfsmönnum á ákærusviði embættisins tengjast hjónunum. Dóttir Fríðar er löglærður fulltrúi á sviðinu og kollegi hennar, Grímur Hergeirsson, tók að sér verkefni sem tengdust erjunum fyrir Ragnar Val er hann starfaði sjálfstætt sem lögfræðingur.

„Embættið er enn vanhæfara núna enda er Grímur settur lögreglustjóri í dag og hefur haft bein afskipti af deilunni. Það hefur verið bein lína frá nágrönnum mínum inn á borð lögreglu í áraraðir. Ég tel að embættinu hafi verið beitt miskunnarlaust gegn mér,“ segir Hreggviður.