Tæplega 38 þúsund landsmanna, sem eru á kjörskrá, hafa nú skrifað undir kröfu um að Al­þingi virði niður­stöðu þjóðar­at­kvæða­greiðslunnar 20. októ­ber 2012 og lög­festi nýju stjórnar­skrána.

Það eru um 15 prósent kosningarbærra manna á landinu. Heildarfjöldi kjósenda árið 2020 eru 252.217 manns.

Langt yfir markmiðinu

Upp­haf­legt mark­mið her­ferðarinnar um nýja stjórnar­skrá var að safna 25 þúsund undir­skriftum fyrir 20. októ­ber. Það mark­mið náðist hins vegar þann 23.septem­ber síðast­liðinn langt fyrir settan dag. Því var á­kveðið að hækka mark­miðið í 30 þúsund. Sá á­fangi náðist síðastliðinn mánudag.

Nýjustu mælingar MMR sem kanna af­stöðu til mál­efnisins sýna að aldrei hafi fleiri viljað nýja stjórnar­skrá en nú. Um sex­tíu prósent lands­manna sögðust vilja fá nýja stjórnar­skrá á yfir­standandi kjör­tíma­bili en hlut­fallið hefur ekki verið hærra síðan mælingar MMR hófust.

Umdeilt vegglistaverk

Undirskriftasöfnunin tók mikinn kipp síðastliðna daga eftir að vegglista­verk með á­letruninni „Hvar er nýja stjórnar­skráin“ var fjar­lægt fyrr í vikunni. Verkið hafði að­eins staðið í rúm­lega tvo sólar­hringa áður en það var þvegið af vegg sem hafði lengi hýst ógrynni veggjakrots.

Á­letrunin var fjar­lægð að beiðni Rekstrarfélags stjórnar­ráðsins sem barst ábending um verkið frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Ekki hefur borist skýring á því hvers vegna þetta verk var fjar­lægt en ekki önnur sem stóðu þar á undan.

Nýju vegglista­verki með sömu á­letrum var komið upp á vegg sem stendur spöl­korn frá staðnum þar sem upp­runa­lega verkið var málað. Hér fyrir neðan má sjá atburðarásarinnar sem átti sér stað við bílaplanið hjá Sjávarútvegsráðuneytinu í vikunni.

Veggurinn við bílaplanið í síðustu viku.
Mynd/Narfi Þorsteinsson
Áletruninni Hvar er nýja stjórnarskráin var fyrst komið fyrir síðastliðinn laugardag.
Mynd/Narfi Þorsteinsson
Síðastliðinn mánudag var áletrunin fjarlægð.
Mynd/Narfi Þorsteinsson
Á þriðjudaginn var verkið snúið aftur á bílaplanið en nú á annan vegg.
Mynd/Narfi Þorsteinsson