Stórar ferðaskrifstofur sem sérhæfa sig í ferðum til Íslands hafa þurft að fjarlægja markaðsefni og taka ferðir úr sölu þar sem mörg stærstu hótelin á svæðinu eru að verða uppbókuð í júlí, ágúst og jafnvel fram í september.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar hefur meðalverð fyrir gistingu á svæðinu hækkað mikið að undanförnu í takt við aukna eftirspurn.

María Hjálmarsdóttir hjá Áfangastaðastofu Austurlands segir þessar vinsældir ekki beinlínis koma á óvart. Hún hafi heyrt frá fyrirtækjum á svæðinu að bókanir séu langt umfram björtustu spár. Sérstaklega hvað varðar gistingu.

„Ég veit til dæmis að nær öll hótel hérna í kringum Egilsstaði eru að verða fullbókuð. Það er eitthvað um laus herbergi í öðrum bæjarfélögum á Austfjörðum, en það gæti breyst hratt á næstu vikum,“ segir María.

Þessar gríðarlegu vinsældir Austfjarða og Norðausturlands eiga sér nokkrar samhangandi skýringar að mati Maríu.

„Íslendingar flykktust auðvitað austur í veðurblíðunni í fyrrasumar. Það má eiginlega segja að við höfum komist á kortið í þessum blessaða faraldri,“ segir María.

Veðurfarið er þó ekki eina skýringin á auknum vinsældum Austfjarða. María bendir á að mörg fyrirtæki hafi nýtt tækifærið í faraldrinum og lagt aukna áherslu á innlenda ferðamenn í sinni markaðssetningu.

„Allir þessir hlaupaviðburðir, reiðhjólakeppnir og afþreying. Þetta hjálpar allt til. Það sem hefur komið okkur einna mest á óvart er að íslenskir ferðamenn virðast velja að gista á hótelum á ferðum sínum innanlands nú til dags. Það er breyting því Íslendingar voru lítt sýnilegir í hótelbókunum yfir sumarmánuðina fyrir heimsfaraldur.“

Nú þegar ferðatakmörkunum hefur verið aflétt flykkjast erlendir ferðamenn til landsins á ný. Fyrir austan leggst því allt á eitt. Mikil aukning innlendra ferðamanna í bland við erlenda.

„Þá myndast þessi gríðarlega umframeftirspurn sem við sjáum í dag. Og gisting hreinlega selst upp. En við getum ekki kvartað. Þetta er einfaldlega mjög jákvæð þróun fyrir svæðið,“ segir María.

En örum vexti fylgja líka áskoranir. Stóri flöskuhálsinn í ferðaþjónustunni fyrir austan lýtur að mönnun. Viðvarandi húsnæðisskortur blasir við á öllu svæðinu og fyrirtæki eiga erfitt með að útvega starfsfólki húsnæði. María segir þetta skapa ákveðin vandamál.

„Okkur vantar allar hendur upp á dekk, til að standa undir þessum vexti. Ég veit hreinlega ekki hvernig fyrirtækin ætla að leysa þetta. Við gerum víst ekki mikið án starfsfólksins í þessari atvinnugrein.“

Ljósið í húsnæðismyrkrinu segist María þó greina á stórauknum áhuga innlendra og erlendra fjárfesta. Þeir séu farnir að setja sig í samband að fyrra bragði. Bæði hvað varðar fjárfestingar í húsnæði og afþreyingu. „Slíkan áhuga höfum við ekki fundið svona sterkt áður.“

María Hjámarsdóttir, áfangastaðastofu Austurlands