Tuttugu og sjö þúsund manns mættu á miðnæturopnun í Smáralind á miðvikudaginn og segir Sandra Arnardóttir, markaðsstjóri Smáralindar, að mikil stemning hafi verið í húsinu og að allt hafi gengið vel.

„Þetta er ekki okkar stærsta miðnæturopnun en sú þriðja stærsta og fólk skemmti sér mjög vel,“ segir Sandra. Miðnæturopnun í Smáralind fer í eðlilegu árferði fram tvisvar á ári og á viðburðinum bjóða verslanir og fyrirtæki upp á afslætti og tilboð.

Sandra segir fólk spennt fyrir tilboðum og að hugsunin með viðburðinum sé að fólk geti komið og gert góð kaup og skemmt sér samhliða því. „Við vorum að gefa ristaðar möndlur, smá búbblur, kristal og fanta og svo voru alls konar kynningar og skemmtileg stemning langt fram eftir, þetta er alltaf jafn vinsælt,“ segir hún.