Loka þurfti læknastofu í nokkrar klukkustundir í gær vegna þess að einstaklingur sem þangað sótti taldi sig vera með mislinga. Yfirlæknir á Læknavaktinni segir of algengt að fólk komi á heilbrigðisstofnanir þegar það gruni að það sé smitað af sjúkdómnum. Læknavaktin hefur fengið nær sjöfalt fleiri símtöl í dag en aðra daga. Þetta kom fram í kvöldféttum RÚV.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að fjögur staðfest mislingasmit hafi verið staðfest hér á landi síðustu daga. Tvö börn smituðust í flugvél, annað á leið til landsins með flugi Icelandair þann 14. febrúar, eða í flugi Air Iceland Connect daginn eftir. Þá hafa tveir fullorðnir greinst með mislinga. Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum vegna þessa.

Sjá einnig: Mis­lingar jafn­vel ban­vænir: Svona eru ein­kennin

Þórður Ólafsson, yfirlæknir á Læknavaktinni sagði í kvöldfréttum RÚV að loka hefði þurft læknastofu í nokkrar klukkustundir í gær vegna þess að þangað hefði komið einstaklingur sem taldi sig vera með mislinga. „Það er mikið að gera. Það er mikið hringt, sérstaklega í dag. Á venjulegum degi eru kannski 30 til 40 símtöl að degi til en þau hafa verið um 200 í dag,“ sagði Þórður. 

Benti hann á að fólk eigi ekki að koma á heilsugæslustöðvar ef það grunaði smit heldur vera heima og hringja í 1700 og hafa þannig samband. 

Sjá einnig: Mikill við­búnaður á Land­spítala: Fjögur mislingasmit greind