Íslensk erfðagreining hefur hafnað öllum beiðnum einstaklinga um að eyða gögnum um þá í Íslendingabók.

Persónuvernd staðfesti nú á dögunum að leyfilegt væri að hafna slíkum beiðnum en að ábyrgðaraðilar verði að leggja mat á þá hagsmuni sem í hlut eiga hverju sinni með hliðsjón af því markmiði Íslendingabókar að tengja einstaklinga saman eftir skyldleika. Meta þarf hvort þær upplýsingar sem óskað er eftir að verði eytt hafi raunverulega þýðingu fyrir ættfræðirannsóknir.

Heimilt er að hafna beiðni um eyðingu þegar það er tilfellið. Í öðrum tilfellum getur skráður einstaklingur átt rétt á að upplýsingum um hann sé eytt. Hægt er að biðja um að láta fjarlægja upplýsingar um nöfn fyrri maka eða barnsfeðra/mæðra. Persónuvernd telur ekki heimilt að birta upplýsingar um fyrri maka kvartanda í Íslendingabók.

Íslensk erfðagreining sendi Persónuvernd bréf 19. febrúar 2021 að óska eftir áliti stofnunarinnar á lögmæti synjunar ÍE á beiðnirnar en ÍE og fyrirtækið Friðrik Skúlason ehf. eru sameiginlegir ábyrgðaraðilar vefsíðunnar.

Íslenskt erfðagreining og Friðrik Skúlason ehf. eru ábyrgðaraðilar Íslendingabókar.
Fréttablaðið/ Vilhelm Gunnarsson

Markmið ættfræðirannsóknar er að tengja einstaklinga saman

Íslensk erfðagreining segir að höfuðmarkmið ættfræðirannsókna sé að tengja einstaklinga saman eftir skyldleika. Með því að rjúfa tengingar milli einstaklinga eða eyða öllum upplýsingum tiltekinn einstakling er sömuleiðis verið að hafa áhrif á fleiri einstaklinga en þá sem óska eftir eyðingu upplýsinga.

Réttur til eyðingar persónuupplýsinga geri það ómögulegt eða hamli því verulega að markmið ættfræðirannsókna náist.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að ábyrgðaraðilar, ÍE og Friðrik Skúlason ehf., geti synjað beiðni einstaklinga ef eyðingu upplýsinga dragi það úr áreiðanleika og nytsemi Íslendingabókar við ættfræðirannsóknir.

Íslendingar hafa óskað eftir því að fá að gleymast

Evrópudómstóllinn dæmdi, árið 2014 í máli varðandi Google á Spáni, að þeim sem reka leitarvélar á netinu geti í ákveðnum tilvikum verið skylt að fjarlægja af lista leitarniðurstaðna, sem birtast við uppflettingu á nafni tiltekins einstaklings, tengla á vefsíður, sem birtar eru af þriðja aðila og hafa að geyma upplýsingar um einstaklinginn.

Evrópudómstóll úrskurðaði árið 2019 að Google þurfi ekki að láta réttinn til að gleymast gilda um allan heim. Þetta þýðir að fyrirtækið þarf bara að fjarlæga hlekki úr leitum sem eru gerðar innan Evrópu, en ekki annars staðar, að því gefnu að fyrirtækið hafi fengið viðeigandi beiðni.

Varðveislusvið Landsbókasafns hefur fengið margar fyrirspurnir frá Íslendingum um að fá að gleymast. Landsbókasafnið ritskoðar ekkert og fjarlægja ekkert efni og nær því rétturinn til að gleymast ekki til stærsta gagnasafns þjóðarinnar.