Innan við helmingi landsmanna líst vel á nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, ef marka má nýja könnun Prósents. Aðeins sextán prósentum lýst mjög vel á hina nýju stjórn og 23 prósentum frekar vel. Nítján prósentum líst hins vegar mjög illa á hana og sextán prósentum frekar illa. Nítján prósentum aðspurðra líst hvorki vel né illa á stjórnina.

Svarendur skiptast mjög í tvö hólf í afstöðu til nýrrar ríkisstjórnar.

Yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum líst vel á nýju stjórnina, eða 87 prósentum. Af þeim sem kusu Framsóknarflokkinn líst 68 prósentum vel á stjórnina en aðeins rúmlega helmingi þeirra sem kusu Vinstri græn, eða 53 prósentum.

Af kjósendum stjórnarflokkanna er mest andstaða við stjórnina meðal kjósenda Vinstri grænna en 22 prósentum þeirra líst illa á stjórnina. Nánast engin óánægja mælist meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, eða um það bil 2 prósent.

Kjósendum Pírata lýst illa á stjórnina

Eðli málsins samkvæmt mælist stjórnin fremur illa fyrir meðal kjósenda þeirra flokka sem eru í stjórnarandstöðu.

Þó líst tæpum fjórðungi kjósenda Viðreisnar vel á stjórnina og 27 prósentum kjósenda Miðflokksins. Aðeins 7 prósentum kjósenda Pírata líst vel á hana og 9 prósentum kjósenda Samfylkingarinnar.

Yngstu kjósendurnir óánægðastir

Athygli vekur að velþóknun á hinni nýju stjórn er langminnst meðal yngstu kynslóðarinnar og þeirra sem minnstar tekjur hafa en eykst jafnt og þétt með hækkandi aldri og tekjum.

Ánægja með stjórnina er meiri meðal þeirra sem hafa hærri tekjur en óánægðir dreifa sér á alla tekjuhópa.

Ánægjan mest á landsbyggðinni

Ríkisstjórnin er mun vinsælli á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Tæpum helmingi þátttakenda sem búa á landsbyggðinni líst vel á nýju stjórnina, eða 47 prósentum. Velþóknun á henni er rétt innan við 40 prósent meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Könnun Prósents var framkvæmd 1. til 10. desember síðastliðinn. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2.300 einstaklingar á aldrinum átján ára og eldri. Svarendur voru 1.134 eða 49,3 prósent.