Nær helmingur er á móti því að gælu­dýra­eig­endur fái að taka gælu­dýrin sín með sér á veitinga­stað. Það sýna niður­stöður nýrrar könnunar sem fram­kvæmd var af Maskínu í janúar á þessu ári.

Alls eru 47,1 prósent and­víg og 32,7 prósent hlynnt því að gælu­dýra­eig­endur fái að taka gælu­dýr sín með sér á veitinga­stað. Nokkuð stór hluti, eða um fimmtungur, 20,3 prósent, er í meðal­lagi hlynntur eða and­vígur því.

Nokkuð fleiri karlar eru and­vígir því sam­kvæmt niður­stöðum könnunarinnar og svo eftir því sem aldur verður hærri er hlut­fallið hærra af þeim sem eru and­víg. Af þeim sem eru 18 til 29 ára eru um 35 prósent and­víg en af þeim sem eru 60 ára og eldri eru um 66 prósent and­víg.

Fólk neyðist oft til að skilja hundana eftir úti.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fleiri hlynntir á höfuðborgarsvæðinu

Þá er einnig nokkur munur eftir bú­setu en í­búar Reykja­víkur og sveitar­fé­laganna í kring eru nokkuð já­kvæðari fyrir því að fólk taki gælu­dýrin með sér á veitinga­stað. Í Reykja­vík eru um 40 prósent hlynnt því en á Norður­landi eru 23 prósent hlynnt og á Austur­landi að­eins tæp 20 prósent. Þar eru 62 prósent and­víg því.

Ekki er mikill munur á skoðunum fólks eftir menntun, tekjum eða hjú­skapar­stöðu en þegar litið er til flokks sem fólk myndi kjósa í kosningum sést að kjós­endur Vinstri grænna eru hlynntust því að fólk fái að taka gælu­dýrin á veitinga­stað en kjós­endur Mið­flokksins eru flest á móti því, en ef talið er þau sem eru mjög and­víg og fremur and­víg er hlut­fallið jafnara á meðal kjós­enda fleiri flokka.

Nánar um niðurstöðurnar hér.