Bróður­partur allra nem­enda í Haga­skóla skrifaði undir stuðnings­yfir­lýsingu gegn brott­vísun af­ganskrar skóla­systur sinnar og fjöl­skyldu hennar til Grikk­lands. Stór hluti nem­enda skólans gekk í morgun fylktu liði og af­henti út­lendinga­nefnd kæru­mála og dóms­mála­ráðu­neytinu ríf­lega sex þúsund undir­skriftir þar sem þess er krafist að fjöl­skyldunni verði ekki vísað úr landi. 

„Þetta gekk ó­trú­lega vel. Núna erum við bara að labba aftur í skólann og allir fara í sína tíma,“ segir Svava Þóra Árna­dóttir, nemandi í tíunda bekk í Haga­skóla, og einn skipu­leggj­enda mót­mælanna. 

Hún segir að af­hentar hafi verið á milli 500-600 hand­skrifaðar undir­skriftir frá nem­endum Haga­skóla og 6200 raf­rænar undir­skriftir. Nem­endur Haga­skóla telja um 600 manns og skrifuðu því lang­flestir, ef ekki allir, undir yfir­lýsinguna. 

„Við erum búin að safna í svona tíu daga, en það var al­gjör­lega val­frjálst að skrifa undir,“ segir Svava í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Svava segist enn ekki hafa fengið við­brögð stjórn­valda við yfir­lýsingunni, en hópurinn batt vonir við að Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir dóms­mála­ráð­herra myndi veita undir­skriftunum við­töku. Þór­dís var hins vegar fjarri góðu gamni þegar nem­endurnir mættu í ráðu­neytið. 

„Núna tekur bara við bið. Við sjáum svo hvað gerist og hvernig verður tekið í undir­skriftirnar. En ef ekkert gerist þá munum við halda á­fram að berjast.“ 

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í gær hófst undir­skrifta­söfnunin fyrir um tíu dögum. Krafa nem­enda í Haga­skóla er að skóla­systir þeirra, hin fjór­tán ára Za­inab, fái hæli hér á landi, og vísa meðal annars tik þess að hún hafi þruft að ganga í gegnum hluti sem „ekkert barn eða full­orðinn ein­stak­lingur ætti að þurfa að ganga í gegnum.“.