Evrópsk, banda­rísk og áströlsk lög­reglu­yfir­völd flettu í dag hulunni af einni um­fangs­mestu lög­reglu­að­gerð sem ráðist hefur verið í vegna dul­kóðaðrar glæpa­starf­semi. Í frétt Guar­dian kemur fram að að­gerðirnar nái til ní­tján landa og voru um átta hundruð manns hand­teknir.

Að­gerðin nefndist á ensku „Operation Green­light/Trojan Shield“ og hófst árið 2018 þegar banda­ríska al­ríkis­lög­reglan FBI stóð leyni­lega að þróun smá­forritsins An0m. For­ritið var dul­kóðað skila­boða­for­rit og selt til glæpa­sam­taka.

FBI hafði þar með að­gang að símum yfir 300 glæpa­hópa í fleiri en 100 löndum. Glæpa­hópar út­deildu sér­sniðnum símum, þar sem öll virkni, meðal annars mynda­vélar og hljóð­skila­boð, var tak­mörkuð utan An0m for­ritsins sjálfs. Þannig héldu for­svars­menn hópanna að símarnir væru dul­kóðaðir og engar til­raunir gerðar til að fela þau sam­skipti sem áttu sér stað með símanum.

Ástralska lög­reglan hefur hand­tekið 224 manns, hand­lagt 104 skot­vopn og 25 milljón breskra punda. Í Evrópu voru 49 hand­teknir í Hollandi, 75 í Sví­þjóð og fleiri en 60 í Þýska­landi en þar hald­lögðu yfir­völd hundruð kílóa af eitur­lyfjum, fleiri en tuttugu skot­vopn og fleiri en þrjá­tíu lúxus­bíla og pening.

Hér að neðan má horfa á umfjöllun áströlsku fréttastöðvarinnar 7News um málið: