Ekki verður farið í sérstakt sumarátak fyrir námsmenn í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun (VMST) í ár líkt og gert var á síðasta ári. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri VMST, segir ástæðuna fyrst og fremst gott atvinnuástand.

„Atvinnulífið hefur tekið hratt við sér og atvinnuleysi lækkar hratt milli mánaða. Ferðaþjónustan alveg hreint æpir á starfsfólk,“ segir Unnur.

Hún segir námsmenn í atvinnuleit geta leitað til Vinnumiðlunar VMST eftir upplýsingum og þar sé einnig hægt að sækja um hin ýmsu störf. „Kannski þarf fólk þá að taka einhverju starfi á meðan það leitar að sínu draumastarfi,“ segir Unnur.

Vinnumálastofnun tekur um þessar mundir upp nýtt tölvukerfi. Ekki verður hægt að fara inn á Mínar síður á vef VMST fram á þriðjudag vegna þessa. Þá verður skrifstofan lokuð á næsta mánudag.